Annan hættir og gagnrýnir Öryggisráðið

0
554

Annan Fawzi

 

2. ágúst 2012 Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur tilkynnt afsögn Kofi Annan, sameiginlegs erindreka Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins í Sýrlandsdeilunni.

Annan sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna var skipaður í starf erindrekans í febrúar og var ætlað að binda enda á ofbeldi og mannréttindarbrot og vinna að friðsamlegri lausn Sýrlandsdeilunnar.

Annan lagði fram sex-liða friðaráætlun til að binda endi á deiluna. Í áætluninni var gert ráð fyrir að ofbeldisverkum myndi linna, greitt yrði fyrir aðgangi mannúðarsamtaka að þeim sem ættu um sárt að binda, fangar yrðu leystir úr haldi, pólítiskar viðræður hafnar og óheftur aðgangur alþjóðlegra fjölmiðla að Sýrlandi tryggður.

Viðbrögð voru í fyrstu góð en deilendur hafa lítið sem ekkert gert til þess að hrinda áætluninni í framkvæmd.

Í viðtölum við fréttamenn í Genf sagði Annan að þar sem “hernaðarátök hefðu aukist og engin eining væri í Öryggisráðinu, hefðu aðstæður breyst og viðleitni hans væri unnin fyrir gíg.”

“Þegar þörfin er mest og aðgerða er þörf í þágu Sýrlendinga, halda deilur og gagnkvæmar ásakanir áfram í Öryggisráðinu,” bætti hann við.

“Við höfum unnið náið saman undanfarna mánuði og ég á honum og starfsliði hans skuld að gjalda fyrir viðleitni þeirra. Ég mun halda áfram að nýta mér visku hans og ráðgjöf,” sagði Ban.

Mynd: Kofi Annan og Ahmad Fawzi, talsmaður hans á blaðamannafundi í Genf. SÞ-mynd//Y. Castanier