Hjálpum Palestínumönnum að þrauka veturinn

0
492
Share your warmth

Share your warmth

2. desember 2015. Á sama tíma og jólaundirbúningurinn er að hefjast í okkar heimshluta, búa palestínskir flóttamenn sig undir erfiðan vetur.

Palestínuhjálpin (UNRWA) hefur hafið árlega fjársöfnun sína í þágu palestínskra flóttamanna í Sýrlandi, Gasa, Vesturbakka Jórdanar, Líbanon og Jórdaníu. Stendur söfnunin yfir frá 1.desember til loka janúar 2016. Hún ber heitið #DeilduHlýjuÞinni (#ShareYourWarmth).

Markmiðið er að auka vitund fólks um erfiðar aðstæður palestínskra flóttamanna að vetri til, en margir þeirra eru heimilislausir eða hafa orðið að flýja heimili sín vegna átaka, nú síðast í Sýrlandi. Stefnt er að því að safna andvirði tveggja milljóna Bandaríkjadala til að aðstoða flóttamenn við að gera við húsakynni og kaupa hlý föt, dýnur, sængur og aðrar nauðsynjar fyrir veturinn.

Þúsundir manna eru enn án fullnægjandi húsaskjóls á Gasavæðinu eftir nýliðin átök og herkví Ísraelsmanna veldur miklum erfiðum við endurreisnarstarf og að koma hjólum efnahagslífsins af stað. Meir en helmingur palestínskra flóttamanna í Sýrlandi hefur lent á vergangi vegna átakanna í landinu.

Sjá myndband :

„Palestínskir flóttamenn hafa sýnt mikið hugrekki og rausn, þegar þeir standa frammi fyrir  andstreymi,“ segir forstjóri UNRWA Pierre Krähenbühl. „Í dag hvetjum við alþjóðasamfélagið til að sýna samstöðu með palestínskum flóttamönnum og láta fé af hendi rakna í söfnunina #shareyourwarmth til að sjá til þess að enginn sé skilinn eftir úti í kuldanum.”

Hægt er að gefa fé á þessari síðu: http://www.unrwa.org/donate/shareyourwarmth,

Og vekja má athygli á herferðinni með því að nota myllumerkið #shareyourwarmth á samskiptamiðlum og vefsíðum.