Hollráð fyrir græn og gleðileg jól!

Jólin eru ekki aðeins trúarhátíð heldur ekki síður matarhátíð. En matarsóun er því miður oft og tíðum fylgifiskur hátíðanna. 

En hvað er til ráða? Danski sérfræðingurinn Yvonne Luff Gottfredsen, hefur ráð undir rifi hverju, þar á meðal þessar fimm leiðir til að minnka matarsóun um jólin.

 Það er til mikils að vinna því svo dæmi sé tekið er talið að 88 milljónum ton af matvælum sé hent árlega í Evrópusambandslöndunum einum. Þriðungur allra matvæla í heiminum fer í tunnuna þótt ekki skrifist það alfarið á reikning neytenda.

Yvonne Luff Gottfredsen,  er dönsk kona sem sérhæfir sig í ráðgjöf um matvæli og heilsu. Hún er líka sérstakur sendiherra dönsku samtakanna Stöðvum matarsóun (Stop madspild) og hefur að beiðni þeirra tekið saman fimm skrefa leiðarvísi um hvernig forðast megi matarsóun um jólin.

„Auðvitað höldum við fast í allar okkar hefðir og höfum það gott eins og við erum vön,“ segir Gottfredsen. „En ef við hugsum aðeins út fyrir rammann og ígrundum hlutina getum við forðast að fylla tunnurnar með ætum og góðum mat- líka um jólin.“

Gottfredsen bendir á að minni matarsóun feli ekki aðeins í sér að spara fé og tíma heldur sé einnig lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. „Þetta snýst ekki um að skemmta sér ekki vel – heldur bara um að láta mat ekki fara til spillis. Með öðrum orðum með smá áætlun og heilbrigðri skynsemi getum við sleppt matarsóun um hátíðarnar.“

Hér er fimm þrepa leiðarvísirinn:

  1. Skipulag

Hugleiðið að tæma frystinn áður en jólaboðin hefjast svo rúm sé fyrir afganga. Takið með í reikninginn hve margir gestir eru og að hver þeirra borðar á milli 500 og 700 grömm eftir því hvort um hádegis- eða kvöldverð er að ræða. Hafið brauð með ef þið óttist að maturinn dugi ekki.

Hafið í huga þegar jóla-matseðillinn er ákveðinn að nota megi afgangana dagana á milli boða. Til dæmis má rífa ost niður eða skera í þunnar sneiðar til að setja ofan á brauð og stinga í ofn og bera fram með bráðna ostinum.

2. Setjið ekki allan matinn á jólahlaðborð í einu

Sýnið gestum ykkar réttina sem þeir eiga vona á í jólaboði eða rissið upp matseðil. Stöðugur straumur rétta getur verið á veisluborðið en á sama tíma hverfa afgangar á vit frystisins.

3. Smáréttir

Ein sniðug leið er að bjóða upp á smárétti sem skammtaðir eru fyrirfram á disk. Oftast dugar þetta til að seðja alla, jafnvel þótt aðeins einn réttur eða skammtur sé fyrir hvern gest. Minna er oft meira!

4. Borða afganga fyrst

Geymdu afganga í sérstakri afganga-hillu í ísskáp eða frysti. Og það er snjallræði að forgangsraða í ísskápnum þannig að sá matur sem hefur minnst geymsluþol sé fremst í afganahillunni. Það eykur líkurnar á að heimilisfólkið sækji í jóla-afganganna fyrst. Ef það er mikið af afgöngum þá er upplagt að frysta matinn í réttum skammtastærðum fyrir máltíðir í janúar.

5. Áfengir ísmolar

Vínið þarf ekki að fara til spillis því rétt eins og rjóma, má frysta rauðvín- og hvítvín og jafnvel kampavín og nota seinna til að bragðbæta mat til dæmis á wokpönnunni.

„Ef það eru afgangar eftir jólaboðin er líka hægt að útbúa afgangapoka fyrir gestina áður en þeir fara“, segir Gottfredsen sem segist aldrei láta jólagesti sína fara tómhenta heim!

Verði ykkur að góðu og gleðileg jól!

Fréttabréf

Generalsekretærens uttalelse om COVID-19