COP27: Hvað hefur plast með loftslagsbreytingar að gera?

0
403
COP27. COP27. Plast innanum rekavið á Ströndum.
COP27. Plast innanum rekavið á Ströndum. Mynd: Árni Snævarr

COP27. Loftslagsbreytingar. Plastmengun. Þegar talað er um plastmengun koma fyrst upp í hugann dýr sem fest hafa í plastrusli eða flöskur í flæðarmáli. En plastmengun teygir anga sína víðar og hún byrjar við sjálfa framleiðslu efnisins. 

Plastframleiðsla er sú uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði sem vex hraðast. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) telur að frá og með 2040 megi rekja 19% allrar losunar gróðurhúsalofttegunda til plastframleiðslu,- notkunar og förgunar.

Úr hverju er plast?

COP27. Frá sýningu japanska listamannsins Tadashi Kawamata í Lissabon
COP27. Frá sýningu japanska listamannsins Tadashi Kawamata í Lissabon. Mynd: Árni Snævarr

Plast er ekki eitt einstakt efni heldur safn efna, sem hafa hvert sitt innihald og einkenni. Í raun eru þúsundir mismunandi plasttegunda.  Hins vegar er 99% alls plasts sem við notum í dag úr jarðefnaeldsneyti á borð við olíu, gas eða kol. Mörg olíufélög eiga, reka eða fjárfesta í plastframleiðslu.

Plast er einnig hægt að vinna úr endurnýjanlegum efnivið eins og timburtrefjum og þörungum, en þessi iðnaður er aðeins lítið brot plastframleiðslunnar.

Hve mikið plast er framleitt?

Í dag eru framleidd 438 milljón tonn af plasti á hverju ári. Ekkert útlit er fyrir að úr þessu dragi. Þvert á móti er talið að talan hækki og verði 34 milljarðar tonna fyrir 2050. 300 milljón tonna af plasti fara í ruslið á hverju ári sem er álíka og samanlögð þyngd allra jarðarbúa að sögn UNEP.

Hve mikið plast er endurunnið?   

COP27 - Plast
COP27 – Plast. Mynd: Volodymyr Hryshchenko /

Talið er að aðeins 10% af því plasti sem framleitt er sé endurunnið. Um 79% endar í landfyllingum eða úti í náttúrunni. 12% er brennt.

Þótt fræðilega sé hægt að endurvinna stærstan hluta plasts, er raunveruleikinn allt annar. Mörg ljón standa í veginum. Plastið er þakið matarleyfum, límdir á það merkimiðar og á stundum hefur verið blandað við það skaðlegum efnum. Oftar en ekki skortir efnahagslegan hvata.

COP27 - Plast.
COP27 – Plast. Mynd: Brian Yurasits/Unsplash

Fyrir vikið er núverandi endurvinnsla oft og tíðum aðeins biðstöð á leið plastsins í landfyllingar eða brennslu og kemur ekki í veg fyrir plastmengun.

Plast veldur losun gróðurhúsalofttegunda á öllu æviskeiði sínu frá vinnslu jarðefnaeldsneytis til orku- og losunarfrekrar framleiðslu sjálfs plastsins. Árið 2019 var losun plastframleiðslu og brennsla á gróðurhúsalofttegundum álíka og 189 fimm hundruð megawatta kola-orkuvera. .

Ef plastframleiðsla og notkun vex jafnmikið og spáð hefur verið, má búast við að losunin nemi 1.34 gígatonni á ári fyrir 2030. Það er álíka og 295 ný fimmhundruð megawatta koladrifin orkuver.

 Af þessum sökm er ljóst að losun frá plasti er ógn við þau markmið sem hafa verið samþykkt í loftslagsmálum.

Hvað ber að gera til að takast á við plastmengun? 

Til að milda áhrif plastmengunar verður að höggva að rótunum. Ekki er nóg að einstaklingar minnki notkiun sína, heldur verður að minnka framleiðsluna í heild.

Margir möguleikar eru til að binda enda á plastmengun, þar á meðal að enda framleiðslu og neyslu á einnota plasti, minnka notkun einnota plastumbúða og að plastgeirinn verði tekinn með í reikninginn í losunar-markmiðum.

Á fimmta Umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna samþykktu 175 þjóðir að hefja viðræður um bindandi sáttmála samtakanna um plastmengun sem á að ná til alls æviskeiðs plastsins.

Opinberar samningaviðræður í þessu skyni eiga að hefjast í nóvember 2022 og ber að ljúka þeim fyrir 2024.

Heimild: UNDP

Sjá einnig td. hér, hér og hér