Illa læsir Evrópubúar álíka margir og Þjóðverjar

0
482

Literacy
7. september 2012. Evrópusambandið verður að finna nýja leiðir til þess að bæta læsi íbúanna segir í niðurstöðum sérfræðinganefndar sem framkvæmdastjórn sambandsins skipaði.

Fimmti hver fimmtán ára unglingur auk rúmlega 75 milljóna fullorðinna eru illa læsir- og skrifandi og eiga af þeim sökum erfitt með að fá vinnu auk þess að líkur aukast á fátækt og félagslegri einangrun. Þetta er álíka fjöldi og allir íbúar Þýskalands.

Í skýrslunni eru kynntar tillögur til úrbóta; allt frá því að ráðleggja foreldrum hvernig venja má börn á lestur til ánægju; hýsa bókasöfn á óvenjulegum stöðum á borð við verslanamiðstöðvar,  auk þess að auka fjölda karlkyns kennara til að vera drengjum til fyrirmyndar en þeir lesa mun minna en stúlkur.

Formaður sérfræðingahópsins Laurentien Hollands prinsessa segir að skýrslan sé alvarleg áminning um “kreppu sem herji á hvert einasta ríki í Evrópu.”  
Prinsessan er sérstakur erindreki UNESCO, Mennta- menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna um læsi og þróun.  Skýrsla sérfræðinganna var kynnt í tilefni af Alþjóðlegum degi Sameinuðu þjóðanna sem tileinkaður er læsi, 8. september.  

Áratug læsis hjá Sameinuðu þjóðunum lýkur í lok þessa árs. Í ávarpi í tilefni af alþjóðlegum degi læsi, segir Ban Ki-moon framkvæmdastjóri samtakanna að þótt mikill árangur hafi náðst á þessum áratug en 90 milljónir karla og kvenna hafa bættst í hóp læsra, sé mikið verk óunnið en alls eru 775 milljónir ólæsra í heiminum.

“Við verðum að grípa skjótt í taumana til að ná til þeirra sem standa höllustum fæti svo að þeir njóti þessara sjálfsögðu mannréttinda. Það er þörf á alheimshreyfingu í þágu menntunar. Af þessum sökum hleypi ég af stokkunum síðar í þessum mánuði nýju átaki sem ber heitið Menntun í fyrirrúmi,” segir Ban Ki-moon.

Sjá nánari úttekt í In Focus á vefsíðu UNRIC: http://www.unric.org/en/literacy og www.unric.org/is
 
Meðfylgjandi mynd: Laurentie Hollands prinsess og Androulla Vassilio, fulltrúi í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á blaðamannafundi í Nikosía á Kýpur 6. september 2012. (Mynd: Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins)