Lýðræði krefst upplýstra borgara

0
489

Mósambík

15. september 2012. Alþjóðlegi lýðræðisdagurinn er í dag 15. september og er kastljósinu að þessu sinni beint að þemanu “Lýðræðismenntun.” Lýðræði er einn af hornsteinum Sameinuðu þjóðanna enda má segja að útbreiðsla grundvallarhugsjóna lýðræðis sé stór hluti starfseminnar. (Sjá nánar hér: http://www.un.org/en/events/democracyday/pdf/presskit.pdf)

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2007 að 15. september ár hvert skyldi vera alþjóðlegur lýðræðisdagur.

Þema dagsins í ár 2012, Lýðræðismenntun, er þýðingarmikið framlag til þess að lýðræði festi sig í sessi til langframa. Hver borgari, sérhvers ríkis verður að skilja til hins ýtrasta réttindi sín og ábyrgð, sérstaklega í löndum sem eru að taka upp lýðræðislega stjórnarhætti. Stofnanir borgaralegs samfélags, frjálsir fjölmiðlar og menntakerfið þurfa að veita svör við spurningum á borð við: “Hvers vegna ætti ég að kjósa?”, “Hvernig get ég haft áhrif á ráðamenn?”, “Hvers get ég vænst af kjörnum fulltrúum?” og “Hver eru stjórnarskrárbundin réttindi mín?”. Varanleg lýðræðismenning þrýfst einungis ef borgararnir eru upplýstir um slíkt.

Í ávarpi sínu á lýðræðisdaginn 2012 bendir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á að þetta ár hafi verið viðburðaríkt í sögu lýðræðisins og fólk víða hafi verið sigursælt í baráttu fyrir virðingu og mannréttindum, fyrir upprætingu spillingar, fyrir þátttöku í ákvörðunum um framtíð sína, atvinnu, réttlæti og hlut í pólitískri ákvarðanatöku.

“Saga þessa fólks er rétt að byrja,” segir framkvæmdastjórinn. “Lýðræðisríki urðu ekki til á einni nóttu, ekki á einu ári eða með því að halda einar eða tvær kosningar. Lýðræði kostar stanslausa vinnu og strit. En þegar það hefur skotið rótum, er ekki aftur snúið.”

Mynd: Kosningar í dreifbýli í Mósambík. SÞ-mynd: Pernaca Sudhakaran