Íslenska ríkið styður verkefni UNICEF um að koma íröskum börnum aftur í skóla

0
453

11. september 2007. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra hefur ákveðið að veita 10 milljónum króna til sameiginlegs átaks Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og UNICEF til aðstoðar börnum sem eru meðal íraskra flóttamanna í Sýrlandi, Jórdaníu, Egyptalandi og Líbanon. Áætlað er að meðal íraskra flóttamanna sé um hálf milljón barna á skólaaldri sem hafa lítinn sem engann aðgang að menntun.

 UNHCR og UNICEF hafa nýlega lagt fram sameiginlega hjálparbeiðni þar sem til stendur að safna fé til aðstoðar stjórnvöldum í Sýrlandi, Jórdaníu, Egyptalandi og Líbanon við að setja af stað verkefni sem hvetur og styður börn íraskra flóttamanna til að ganga í skóla. Markmiðið er að greiða fyrir skólagöngu um 100.000 barna í Sýrlandi, 50.000 í Jórdaníu, 2.000 í Egyptalandi og 1.500 í öðrum löndum á svæðinu.

Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við menntamálayfirvöld og aðra samstarfsaðila í hverju landi og er miðað við að styrkja skólana til að taka á móti nemendum, fá þau börn aftur í skóla sem hafa hætt, sérstaklega stúlkur og unglinga. Einnig munu um 12.000 fjölskyldur, sem búa við sérstaklega mikið harðræði, fá stuðning og hrundið verður af stað átaki til að hvetja fjölskyldur til að senda börn sín í skóla.
Sameinuðu þjóðirnar telja að meira en fjórar milljónir Íraka hafi flúið heimili sín vegna átaka í landinu undanfarin ár, flestir síðan 2003. Rúmlega tvær milljónir eru á vergangi innan Írak og tvær milljónir hafa farið úr landi. Talið er að um ein og hálf milljón séu í Sýrlandi og rúmlega ein milljón í Jórdaníu, Íran, Egyptalandi, Líbanon, Jemen og Tyrklandi.

Þetta kemur fram í Stiklum, riti utanríkisráðuneytisins um alþjóðamál.