Jafnréttismál: ekki nóg að konur ræði við konur

0
467

Gunnar Bragfi

1. október 2014. Ísland og Súrinam ætla að skora staðalímyndir um karla á hólm á nýstárlegu málþingi um kynjajafnrétti á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í janúar í New York.

 Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra sagði að málþingið væri einstakt í sinni röð þar sem eingöngu karlar munu koma saman og ræða jafnrétti kynjanna, þegar hann tilkynnti um ráðstefnuhaldið í ræðu sinni á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Urður Gunnarsdóttir, blaðafulltrúi utanríkisráðuneytisins sagði í svari við fyrirspurn íslensku vefsíðu UNRIC að Ísland væri mjög virkt í jafnréttismálum á alþjóðavettvangi og væri oft fremst í fararbroddi þegar jafnréttismál væri rædd. Þannig hefði Ísland m.a. lagt mikla áherslu á jafnréttismál í umræðu um ný þróunarmarkmið, nýsamþykktan vopnaviðskiptasamning og hefði leitt vinahóp tæplega 50 ríkja um mikilvægi Beijing skuldbindinganna en 20 ár verða liðin á næsta ári frá því að þau voru samþykkt. 

„Við höfum hins vegar rekið okkur á að í umræðu um jafnrétti, sérstaklega á alþjóðavettvangi, eru oftast konur að ræða við aðrar konur”, segir Urður. „ Mikilvægt er að fá menn með í baráttunni fyrir kynjajafnrétti enda er jafnrétti fyrir alla og samfélaginu í heild til góðs. Karlar eru ekki bara vandamálið heldur líka mikilvægur hluti af lausninni.” 

Framkvæði Íslands og Súrínam til þess að virkja karla og stráka í baráttunni fyrir jafnrétti er framlag til HeforShe átaksins sem nýlega var hleypt af stokkunum af Emmu Watson. Ísland mun því ásamt Súrínam boða til svokallaðrar „rakarastofu“ (Barbershop) ráðstefnu þar sem karlmenn munu koma saman til að ræða kynjajafnrétti.
Ráðstefnan verður haldin í New York um miðjan janúar og er framhald af ráðstefnu sem haldin verður á Indlandi í nóvember á þessu ári þar sem karlmenn og samtök karla um jafnrétti munu koma saman.

Ástæðan fyrir því að þema ráðstefnunnar er rakarastofan er að í mörgum löndum þá eru ákveðnir staðir þar sem karlar koma saman og tala m.a. um konur, s.s. rakarstofur, búningsklefar og svo framvegis, þar sem staðalmyndir af hlutverkum kvenna og karla festast í sessi.  „Hugmyndin er að breyta umræðunni á rakarastofum um allan heim þar sem kynjajafnrétti og virðing fyrir konum er fest í sessi og ofbeldi gegn konum hafnað. Hugsunin er sú að það þurfi að breyta staðalmyndinni um karla, eins og bent hefur verið í HeforShe,” segir Urður.

Á fyrri hluta ráðstefnunnar verða sérfræðingar, fulltrúar ríkja og Sameinuðu þjóða kerfisins þar sem ræddar verða leiðir til að fá karlmenn til að taka þátt í jafnréttisbaráttunni.
Seinni hluti ráðstefnunnar verður opinn og munu þar ráðherrar, þekktir einstaklingar og aðrir koma saman til að fjalla um niðurstöðu sérfræðinganna og hvernig hægt sé að fá karlmenn til að beita sér frekar fyrir kynjajafnrétti.