Jólasveinninn að drukkna í bréfum!

0
571

SANTA

23.desember 2014. Jólasveinninn stendur í ströngu þessa dagana við að taka upp póst enda er talið að hann og skyldir aðilar fái 7 milljónir bréfa í ár.

Alþjóðapóstsambandið (UPU) telur að jólasveinninn, Ded Moroz, hinn slavneski frændi hans,  vitringarinir þrír, heilagur Nikulás,  og ýmsir aðrir sem tengjast jólunum, fái meir ein 7 milljónir bréfa í ár. 

Pósturinn í hinum ýmsu löndum hefur auka viðbúnað til að sjá til þess að bréfin fái þá athygli sem þau eiga skilið. Hver þjóð syngur með sínu nefi og jólasveinar og álfar eftir atvikum eru kallaðir til starfa hjá póstinum til að svara bréfum en aukning virðist vera, sérstaklega í Frakklandi og Kanada, að sögn Alþjóða póstsambandsins sem er ein stofnana Sameinuðu þjóðanna.

Kanadískir álfar svara bréfum á meir en þrjátíu tungumálum, þar á meðal á blindraletri, en mörg þeirra eru send á sérstakt póstnúmer jólasveinsins: H0H 0H0.

Í Portúgal sér sveinki, sem heitir á máli innfæddra Pai Natal, til þess að óskir tvö þúsund barna sem standa höllum fæti,verði að veruleika. Bréf þeirra eru birt á sérstakri vefsíðu og fáanleg á öllum pósthúsum í landinu. Viðskiptavinum póstsins gefst kostur á að styðja bréfritara og gefa gjöfina sem börnin óska sér í jólagjöf. Bréfberarnir hlaupa svo í skarðið fyrir Pai Natal og bera gjöfina út – ókeypis að sjálfsögðu.

Christmas„Flestir óska sér leikfanga, en sífellt fleiri óska sér að fá föt, gæludýr og meira að segja systkini“, segir Isabel Tavares, hjá Correios í Portúgal.

Sama er upp á teningnum í Svíþjóð en þar bárust Jólasveininum 22 þúsund bréf í fyrra. „Jólasveinninn fær bréf frá börnum um allan heim, aðallega frá Asíu. Þau biðja oft um farsæld og heilbrigði fremur en leikföng, sem evrópsk börn óska sér,“ segir Maria Ibsen hjá sænska póstinum.

Hinum megin Atlantshafsins í Bandaríkjunum taka 20 pósthús þátt í verkefninu „Bréf til Jólasveinsins“. 500 þúsund bréf eru flokkuð í New York.

Alþjóðapóstsambandið (The Universal Postal Union (UPU)) var stofnað árið 1874 og er næstelsta milliríkjasamband heims. Það hefur starfað innan Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1948 en höfuðstöðvarnar eru í Bern í Sviss.

Myndir: 1) Friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna frá Bólivíu bregður á leik sem Jólasveinninn. SÞ-mynd/Marco Dormino 2) Brasilískur friðargæsluliði í hlutverki Jólasveinsins á Haiti. SÞ-mynd/Logan Abassi.