Klósett skipta máli – jafnvel öllu máli

0
507
Inflatable toilet UN Photo Mark Garten

Inflatable toilet UN Photo Mark Garten

19.nóvember 2015. Þriðji hver jarðarbúi býr ekki við fullnægjandi hreinlætisaðstöðu og áttundi hver verður að gera sér að góðu að ganga örna sinna undir berum himni.

Þetta er brýnt vandamál enda er hreinlæti lykilatriði í heilbrigðis- og umhverfismálum, að ekki sé minnst á möguleika og reisn einstaklinga.

Dæmi um þetta eru indversku foreldrarnir Hamsaveni og Rajesh. Þegar almennilegu salerni var komið upp á heimili þeirra þurfti ekki lengur að ganga allt að 45 mínútna leið til að komast á klósett. Og nú geta þau sparað tíma og peninga til að koma dætrum sínum í skóla alla daga vikunnar. Hér er myndband sem segir sögu þeirra og hvernig klósettið breytti lífi þeirra.

toilet daySameinuðu þjóðirnar halda í dag alþjóðlegan salernisdag  til þess að vekja athygli á hversu salerni, sem þykir sjálfsagður hlutur í hinum vestræna heimi, skiptir miklu máli. Aðgangur að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu hefur verið viðurkenndur sem hluti af mannréttindum. Einnig er þetta hluti af Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun. 

Lítum á nokkrar staðreyndir:

  • Fjárfestingar í hreinlæti, þar á meðal salernum, er gulls ígildi þegar félagsleg- og efnahagsleg þróun er annars vegar. Talið er að fjárfestingin skili sér tilbaka 5.5 sinnum. Þá skipta salerni og hreinlæti máli fyrir menntun því talið er að 272 milljónir skóladaga tapist vegna niðurgangspestar.
  • Aðgangur að öruggum og hreinum klósettum skiptir konur og stúlkur miklu máli því þær eiga á hættu að verða fyrir barðinu á kynferðislegri áreitni og nauðgun ef þær bíða myrkurs til að geta haft þvag- eða saurlát í næði.
  • Niðurgangspest er önnur stærsta dánarorsök barna undir fimm ára aldri í heiminum.

• Í þróunarríkjum rennur um 90% af skolpi óhreinsað í ár og vötn og mengar strendur. Í suðaustur-Asíu er talið að vatnsmengun vegna ófullnægjandi hreinlætis kosti 2 milljarða Bandaríkjadala árlega.