Kvennalögreglusveit Sameinuðu þjóðanna getur stuðlað að friði í Líberíu segir erindreki framkvæmdastjórans

0
484

24. febrúar 2007 – Æðsti erindreki Sameinuðu þjóðanna í Líberíu fagnar því að komið hafi verið á fót lögreglusveit eingöngu skipaðri konum innan vébanda friðargæslu Sameinuðu þjóðanna í landinu og segir að konur geti lagt mikið af mörkum til að koma á friði.

“Reynsla af starfi lögreglu víða um heim sýnir að kvenkynslögreglur eru mjög lagnar við að fást við aðstæður þar sem ofbeldi getur blossað upp”, segir Alan Doss, sérstakur erindreki Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Doss lét þessi orð falla þegar hann heimsótti kvennalögreglusveitina í Kongób-bæ, nærri Monrovíu. “Við þurfum að vera í viðbragðsstöðu vegna hugsanlega uppþota sem þarf ekki að koma á óvart í landi þar sem langri og mannskæðri borgarastyrjöld er nýlokið” segir Doss og segir markmið UNMIL, friðargæslusveitar SÞ vera að viðhalda röð og reglu án þess að grípa til hervalds. “Ég er sannfærður um að með ykkar hjálp getum við tryggt friðsamlegt, stöðugt og ofbeldislaust umhverfi í Líberíu” sagði Doss þegar hann ávarpaði 105 manna lögreglusveit kvenna sem nýtur stuðnings 20 karlmanna. Þetta er fyrsta kvennalögreglusveit sem Sameinuðu þjóðirnar nota í friðargæslu sinni. Doss sagði að UNMIL stefni að því að byggja upp líberíska lögreglu svo að ríkisstjórnin þurfi ekki að beita hernum í hvert skipti sem nauðsynlegt sé að halda uppi röð og reglu í Líberíu.