Ljóðrænt myndband til stuðnings flóttamönnum

0
481
Blanchett2

Blanchett2
14.september 2016. Cate Blanchett, góðgerðasendiherra Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), hefur gefið út myndband þar sem kastljósinu er beint að augnablikinu þegar fólk flýr að heiman. Markmiðið er að vekja athygli á herferðinni #WithRefugees og samnefndri undirskriftasöfnun.

Myndbandið er byggt á taktföstu ljóði eftir Jenifer Toksvig sem ber heitið „Það sem þau tóku með sér,” en þar er spunnið í kringum fyrstu persónu frásagnir flóttamanna af því sem þeir gripu með sér á flóttanum.

„Ég skynjaði kraftinn í ljóði Jenifer Toskvig um leið og ég las það, og ekki síður þegar við fluttum það fyrst,“ segir Cate Blanchett.

„Hrynjandin og orð ljóðsins endurspegla uppnámið og ringulreiðina og hryllinginn þegar fólk verður að yfirgefa heimili sitt í skyndi og grípur eitthvað smálegt áður en það flýr í ofboði,“ bætir hún við.

Blanchett flytur ljóðið ásamt leikurunum Keira Knightley, Juliet Stevenson, Peter Capaldi, Stanley Tucci, Chiwetel Ejiofor, Kit Harington, Douglas Booth, Jesse Eisenberg og Neil Gaiman.

„ Meir en 65 milljónir manna hafa orðið að flýja land sitt um allan heim og verða að skilja allt eftir og byrja líf sitt að nýju upp úr engu,” segir Blanchett.

Hryggjarstykkið í herferð Flóttamannahjálparinnar #WithRefugees er undirskriftasöfnun, en þar er fólk beðið um að ljá undirskrift sína undir hvatningu til ríkisstjórna heims um að tryggja öllum flóttabörnum kennslu, að útvega öllum flóttamönnum öruggan samastað og að leyfa öllum flóttamönnum að vinna og skila sínu til samfélagsins.

Nærri 900 þúsund manns hafa þegar skrifað undir og verða undirskriftirnar afhentar aðalframkvæmdastjóra og forseta Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna föstudaginn 16.september í aðdraganda leiðtogafundar um málefni flóttamanna og farandfólks í New York mánudaginn 19.september.

„Ég vona að þessi mynd ýti við fólki svo að það fari á vefsíðuna withrefugees.org og undirriti áskorunina,” segir Cate Blanchett.

Hér er hægt að undirrita: http://www.unhcr.org/refugeeday/

Mynd: Góðgerðasendiherra UNHCR Cate Blanchett ásamt leikurunum Stanley Tucci, Chiwetel Ejiofor, Kit Harington, og Douglas Booth við æfingar á flutningi ljóðsins. © Rich Hardcastle