Loftslagsbreytingar auka á vatnsskort

0
516
water

water
22.mars 2014. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna varar við því að loftslagsbreytingar muni auka enn álag á vatnsbúskap heimsins og búast megi við vatnsskorti í mörgum heimshlutum.

Í ávarpi á Alþjóðlegum degi ferskvatns, 22.mars, bendir Ban á að loftslagsbreytingar megi rekja til ósjálfbærar nýtingar orku. “Ef núverandi hlýnun heldur áfram mun það grafa mjög undan viðleitni okkar til að sjá öllum jarðarbúum fyrir vatni og orku,” segir Ban Ki-moon. 

Þema Vatnsdagsins í ár er “Vatn og orka”. Orka og vatn eru vitaskuld nátengd enda verður ekki hægt að sjá framtíðar kynslóðum fyrir orku ef vatn skortir, hvort heldur sem er vatnsorku, jarðhitaorku eða meira að segja kjarnorku. Á hinn bóginn fer 8% allrar orku í að pumpa, meðhöndla og flytja vatn til neytenda. 

Athyglin beinist ekki síst að ójöfnum aðgangi að vatni, ekki síst “neðsta milljarðsins”, eða þeirra sem búa í fátækrahverfum og fátækum stöðum í dreifbýli. Þar þarf fólk að sætta sig við að hafa ekki nægan aðgang að öruggu drykkjarvatni, fullnægjandi hreinlætisaðstöðu, hefur ónóga fæðu og litlaorku.

1.3 milljarðar manna um allan heim hafa ekki rafmagn. 768 milljónir hafa ekki fullnægjandi drykkjarvatn og 2.5 miljarðar ekki fullnægjandi salernisaðstöðu. Vatn og orka skipta sköpum við að losna úr fátæktargildru.

Júrí Fedorov,forstjóri UNODC, Eiturlyfja- og glæpaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna segir að spilling kom í veg fyrir sanngjarnari aðgang allra að vatni. UNODC og UNDP, Þróunarstofnun SÞ hafa hleypt af stokkunum átaki gegn spillingu í þágu þróunnar (“Zero corruption, 100x development,”) til að vekja fólk til vitundar um þetta málefni. 

“Á Alþjóða ferskvatnsdeginum skulum við vera þess minnug að vatn felur í sér grundvallar mannréttindi. Við getum ekki lifað án þess. En því verður að skipta á réttlátan hátt og í þágu allra. Þetta þyðir að ríkisstjórnir, einkageirinn, borgaralegt samfélag og almenningur verða að taka höndum saman til þess að uppræta spillingu sem kemur í veg fyrir sanngjarnan aðgang allra að vatni,” segir Fedorov.