Lykketoft býr að danskri málamiðlanahefð

0
516
Lykketoft

Lykketoft

15.september 2015.Mogens Lykketoft, tók í dag formlega við embætti Allsherjarþingsins þegar það kom saman í sjötugasta skipti.

Lykketoft, var á síðasta kjörtímabili forseti danska þingsins, en var áður formaður danska jafnaðarmannaflokksins, utanríkis- og fjármálaráðherra.

Í ræðu sinni þegar hann setti þingið minnti Lykketoft á að aðeins tíu dagar væru þar til leiðtogar heims kæmu saman á vettvangi Allsherjarþingsins til að samþykkja formlega áætlanir um Sjálfbæra þróun til ársins 2030.

Sjálfbær þróunarmarkmiðin eru sautján markmið auk 169 undir-markmiða sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa samþykkt að setja sér og eiga að vera leiðarljós í pólitískri stefnumótun. En Lykketoft sagði að ekki væri nóg að ganga frá samkomulagi og hann sagði að fylgja þyrfti eftir þessum markmiðum með því að ganga frá loftslagssáttmála á COP21 ráðstefnunni í september.

„Aðgerða er þörf,”sagði Lykketoft. „Það er algjört skilyrði að framsækið og almennt samkomulag náist um loftslagsmálin. Það er fyrsti prófsteinninn á hvort við höfum það sem til þarf, til þess að tryggja sjálfbæra þróun.“

Nýkjörinn forseti Allsherjarþingsins vill til lengri tíma blása nýju lífi í starf Allsherjarþingsins og stíga skref í átt til umbóta á starfi Öryggisráðsins.

Lykketoft sagði í viðtali við vefsíðu Sameinuðu þjóðanna að hann myndi færa sér í nyt reynslu sína sem forseti Folketinget, danska þingsins.

„Við höfum fjölflokkakerfi og reynslu af minnihlutastjórnum og þurfum því að vinna með bandalögum ólíkra flokka til skiptis í því skyni að taka ákvarðanir. Þannig að við þekkjum af eigin reynslu nauðsyn þess að leita til annara og að málamiðlanir eru nauðsynlegar til að ná árangri. Og ég held að þessa sé svo sannarlega þörf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.“