Mannréttindaráðið um Ísland

0
506

Tugir athugasemda gerðar vegna launamisréttis, kynferðisafbrota, fangelsis- og innflytjendmála

Almennt mannréttindaástand þó gott; aðkomu almennings að stjórnarskrá, jafnréttismálum, baráttu í mansalsmálum og hjónaböndum samkynhneigðra fagnað.

Human rights councilTugir athugasemda voru gerðar við ástand mannréttindamála á Íslandi í reglubundinni yfirferð Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Þótt mörg ríki lykju lofsorði á stöðu mannréttinda og þá ekki síst í jafnréttismálum, lýstu mörg aðildarríki áhyggjum yfir ástandi fangelsismála, vægum dómum og fáum kærum í kynferðisafbrotamálum, kynbundnu launamisrétti, trúfrelsismálum og seinagangi við að staðfesta alþjóðlega mannréttindasáttmála. Meðal þeirra ríkja sem lýstu áhyggjum sínum af mannréttindum á Íslandi voru Bandaríkin, Bretland, þrjú Norðurlandanna, Ísrael, Afganistan og Íran.

Skýrslan um umfjöllun Vinnuhóps Mannréttindaráðsins um Ísland var gerð opinber í gær (13. febrúar) en hún byggir á yfirferð hópsinsmeð sendinefnd Íslands í Genf í desember á síðasta ári. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra fór fyrir nefnd Íslands sem gerði grein fyrir stöðu mannréttinda í landinu.

Látnar voru í ljós áhyggjur af einstökum málaflokkum og lagðar fram nokkrir tugir tillagna til úrbóta sem íslenska sendinefndin tók í sumum tilfellum undir, sagðist í öðrum tilfellum þegar hafa verið fjallað um málin og tók enn aðrar tillögur til athugunar.

Þessar athugasemdir voru helstar:

Jafnréttismál

•    Launamunur kynjanna var gagnrýndur sérstaklega, meðal annars af hálfu Bretlands, Bandaríkjanna og Ungverjalands.

•    Ástralir, Norðmenn og fleiri lýstu áhyggjum af vægum dómum í kynferðisafbrotamálum sem virkuðu letjandi á konur til að kæra afbrot til yfirvalda. Íranir létu einnig ljós áhyggjur af kynferðislegu ofbeldi á Íslandi og Tælendingar lögðu til að Íslendingar tækju til greina tillögur um aðstoð við fórnarlömb kynferðisofbeldis frá Nefnd SÞ um að uppræta ofbeldi gegn konum.
 

Fangelsismál:

•    Slæmt ástand í fangelsismálum var gagnrýnt; til dæmis að annars vegar ungir og gamlir væru vistaðir saman og hins vegar að dæmdir fangar og þeir sem úrskurðaðir hefðu verið í varðhald, væru saman; (Ástralía, Þýskaland), fangelsi væru léleg (Íran) og löng bið væri eftir afplánun (Finnland). Nefnd um pyntingar hefði meðal annars lagt til úrbætur.

Trúarbrögð:

•    Spánverjar lögðu fram þá spurningu hvort mismunun gagnvart öðrum trúarbrögðum fælist í 62. grein stjórnarskrár Íslands þess efnis að  Lútersk-evangelíska kirkjan nyti stuðnings og verndar ríkisins, þrátt fyrir ákvæði 65. greinarinnar um jafnrétti allra án tillits til trúar.  Spurðu Spánverjar hvort ekki væri ákjósanlegt að breyta orðalaginu.

•    Svíar nefndu að áhyggjur hefðu verið látnar í ljósi af því að prestar kenndu börnum kristna trú, oft og tíðum án samþykkis foreldra.

Málefni útlendinga og innflytjenda:

•    Bretar bentu á að helmingur aðspurðra í könnun frá 2009 hefði talið að mismunun á grundvelli kynþátta væri algeng.

•    Íranir lýstu áhyggjum af landlægu kynþátta- og útlendingahatri, auk félagslegs óréttlætis byggðu á kynþætti.

•    Ganabúar og Slóvakar töldu að efna ætti til herferðar til að auka vitund um og taka í lög efni sáttmála um að útrýma kynþáttahatri og mismunun.

•    Kanada benti á að skortur væri á sjálfstæðri og óháðri málsmeðferð í úrskurðamálum í málefnum flóttamanna eins og Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna og Nefnd samtakanna gegn pyntingum hefðu bent á.

•    Ástralir bentu á að ekki væri nein skilgreining á mismunun kynþátta í íslenskri löggjöf. Spánverjar hvöttu til aðgerða til að aðlaga minnihluta og draga úr hættu á að þeir væru misnotaðir og beittir mismunun og ættu erfitt með að fá vinnu í samræmi við menntun og reynslu.

•    Gagnrýnt var hátt brottfall innflytjendabarna úr skólum (Síle, Gana, Slóvenía og ábendingar Nefndar SÞ um réttindi barna ) og mikið atvinnleysi innflytjenda (Afganistan). Ísraelsmenn létu í ljós áhyggjur af áhrifum fjármálakreppunnar á þá sem höllustum stæðu fæti.

Alþjóðlegir sáttmálar

•    Tínd voru til fjölmörg dæmi um að Ísland hefði ýmist ekki staðfest sáttmála og viðauka við sáttmála á mannréttindasviði eða ekki gerst aðili að þeim. Flest ríki nefndu Sáttmála um fatlaða (Argentína, Bretland, Brasilía, Mexíkó, Ungverjaland, Síle og fl.), Sáttmála um Þvinguð mannshvörf (Frakkland, Spánn) og sáttmála frá um ríkisfangslaust fólk og viðauka hans frá 1961 (Þýskaland, Slóvakía).

Málefni barna

•    Svíar gerðu forræðismál að umræðuefni og hvöttu til að hagur, vernd og velferð barna sætu í fyrirrúmi í forræðismálum. Íranar lýstu yfir áhyggjum af og spurðu um orsakir kynferðislegs ofbeldis gegn börnum og misnotkun þeirra  á Íslandi.
 
•    Enginn einn opinber eftirlitsaðili væri til að fylgjast með ofbeldi og kynferðislega misnotkun gegn börnum. (Bretland)

Almenn staða mannréttindamála góð

Alls létu sendinefndir 25 ríkja til sín taka í umræðum um mannréttindaástand á Íslandi. Flestir töldu  ástandið almennt nokkuð gott og voru ýmis atriði ítrekað nefnd, svo sem:

•    Góð staða jafnréttismála; mikil þátttaka kvenna í opinberu lífi,

•    Aðgangur almennings að samningu nýrrar stjórnarskrár. (Noregur)

•    Aðgerðaáætlun gegn mansali frá 2009 (Bandaríkin, Síle, Mexíkó)  fögnuðu aðgerðaáætlun frá 2009

•    Ný útlendingalög (Bandaríkin, Ástralía); stofnun og starf Alþjóðahúss (Ástralía, Slóvakía)

•    Nýtt fyrirhugað fangelsi (margir, td. Brasilía).

•    Skipan Jóhönnu Sigurðardóttur fyrstra íslenskra kvenna í stöðu forsætisráðherra. (Kanada).

•    Hjónabönd samkynhneigðra (Spánn, Mexíkó).

Almennt taldi íslenska sendinefndin að mannréttindaástand væri gott en fagnaði yfirferðinni enda væri “glöggt gests augað”. Farið var sérstaklega yfir stöðu mannréttinda í kjölfar efnahagshruns og mótmæla 2008 til 2009 og þess getið að í kjölfar komu fulltrúa Alþjóða gjaldeyrissjóðsins til Íslands sé ríkisstjórn Íslands ekki fyllilega fullvalda í þeim aðgerðum sem grípa þurfti til í kjölfarið vegna hruns tekna ríkis og sveitarfélaga. Reynt hefði verið að standa vörð um velferðarkerfið. Meðal þess sem nefndin tíndi til voru að hjónabönd samkynhneigðra voru leyfð samkvæmt lögum og minnti á að Ísland hefði trónað á toppnum í skýrslu Heims efnahagsmála vettvangsns (World Economic Forum) um stöðu kynjanna.

Á hinn bóginn gerði nefndin að umræðuefni að kynbundið- og heimilisofbeldi væri áhyggjuefni; lítill hluti fórnarlamba kærðu ofbeldið og enn færi atvik leiddu til saksóknar og dóma. Umræða sem íslenska kvennahreyfingin hefði leitt, væri fyrsta skref í átt til aðgerða. Sama máli gegndi um aðgerðir gegn mansali. Þá væri vernd Mannréttinda hluti af þróunarsamvinnu Íslands eins og þau væru sett fram í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna og Þúsaldarmarkmiðunum um þróun.

Í andsvörum við athugasemdum tók íslenska sendinefndin í sumum tilfellum jákvætt undir athugasemdir, gagnrýni og tillögur og í öðrum tilfellum taldi hún að þegar hefði verið gripið til aðgerða á ýmsum sviðum. Því var heitið að ýta á eftir staðfestingu Alþjóðlegra sáttmála og lýst yfir að aðild Íslands að ýmsum öðrum sáttmálum og viðaukum yrði könnuð, td. Viðauka við sáttmála um efnahagsleg- félagsleg og menningarleg réttindi, viðauka við sáttmála um pyntingar og Sáttmálann um þvinguð mannshvörf. Einnig var tekið jákvætt í ýmsar ráðleggingar um að fella efni sáttmála inn í íslenska löggjöf.

Íslandi ber að svara athugasemdum og tillögum sem fram komu í síðasta lagi á 19. fundi Mannréttindaráðsins í mars 2012.

Svo dæmi séu nefnd þá kvaðst sendinefndin munu taka til athugunar tillögu Írana um stuðning við Múslima til að leggja stund á sína trú og tillögu Slóvaka um að efna til herferðar til höfuðs fordómum gegn innflytjendum. Einnig skyldi tillaga Ísraela tekin til athugunar en hún snérist um að setja lög til að banna hvers kyns birtingarform kynþáttahaturs, mismununar kynþátta, útlendingahaturs og umburðarleysis.

 Hér má sjá skýrsluna í heild: http://www.un.org/ga/search/view_doc.asp?symbol=A/HRC/19/13&;Lang=E