Mannréttindaráðið

0
525

Almenna yfirferðin: aflvaki breytinga til batnaðar

HR CouncilFrá fundi Mannréttindaráðsins í september 2011. SÞ-mynd/Jean-Marc Ferré

15. febrúar 2012. Ísland var í brennidepli hjá Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna eins og sagt var frá í fréttum í gær. Þá var gefin út skýrsla um starf vinnuhóps ráðsins þegar Ísland var tekið fyrir í svokallaðri “Almennri reglubundinni yfirferð” (Universal Periodic Review).

Ástæða er til að rifja upp sögu og tilgang þessarar málsmeðferðar.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna (UN Human Rights Council) var stofnað árið 2006 og tók við af Mannréttindanefnd samtakanna (UN Human Rights Committee) sem legið hafði undir miklu ámæli. Fjörutíu og sjö ríki eru kosin til setu í Mannréttindaráðinu og fer kjörið fram á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Ein helsta nýjungin sem fólst í stofnun Mannréttindaráðsins var  að farið er yfir stöðu mannréttinda í hverju aðildarríki á fjögurra ára fresti í svokallaðri “Almennri reglubundinni yfirferð.”

Tilgangur þessarar yfirferðar er að efla mannréttindi í hverju ríki og einnig að tryggja að ríki geti ekki komið í veg fyrir að fjallað sé á gagnrýninnn hátt um mannréttindi, td. með því að gera “þagnar”bandalög við önnur sams konar ríki.

Flestir munu vera sammála um að ekki sé komin endanleg reynsla á þetta ferli, en almennt þykir hugmyndin lofa góðu, þótt skiptar skoðanir séu um útfærsluna, eins og vera ber. “Almenna reglubundna yfirferðin hefur alla burði til þess að efla og vernda mannréttindi í dimmustu skúmaskotum heimsins,” segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Áhersla á öll ríki í stað eingöngu sumra

Gamla mannréttindanefndin hafði meðal annars verið gagrnýnd fyrir að einblína um of á ástandið í Mið-Austurlöndum á kostnað annara mannréttindamála.  Öll þrjú þing helguð sérstökum málefnum sem nefndin hélt á starfstíma sínum, voru um Mið-Austurlönd.

Kofi Annan, þáverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lagði mikla áherslu á almennu yfirferðina á mannréttindum hvers ríkis í boðskap sínum til fyrsta fundar Mannréttindaráðsins 2006 og sagði brýnasta nauðsyn á umbótum á þessu sviði með það fyrir augum að yfirferð á ástandi mannréttindamála væri almenn (næði til allra landa) og regulubundin (gerð með reglulegu millibili).

 “Þessar umbætur voru gerðar með það fyrir augum að koma upp áþreifanlegu ferli til að meta fylgni við sameiginleg grundvallarsjónarmið okkar um almenna reglu, jafnræði, hlutlægni og samvinnu. Augu heimsins hvíla á ráðinu og ætlast er til að ferlið sé í samræmi við þessi sjónarmið.”

Almenna reglubundna yfirferðin (the Universal Periodic Review (UPR)) er sérstakt ferli þar sem farið er yfir mannréttindamál í öllum 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna á fjögurra ára fresti. Í þessari yfirferð er ríkjum ætlað að skýra frá hvaða skref þau hafi tekið til að bæta mannréttindi og til að fullnægja skuldbindingum sínum á sviði mannréttinda.  Þessi yfirferð á að tryggja að öll ríki fái sömu meðferð þegar mannréttindi eru vegin og metin.  

„Verkfæri í þágu breytinga“

Óhætt er að segja að þessi yfirferð sé eitt hryggjarstykkið í starfi ráðsins enda eru ríki þar minnt með reglubundnu millibili á skyldur sínar við að virða og framfylgja mannréttindum og grundvallarfrelsi. Markmiðið er að bæta mannréttindi í öllum löndum og takast á við mannréttindabrot hvar sem þau eru framin.  
Lokið var við að fara yfir mannréttindastöðu í öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna í fyrsta skipti í október 2011 og hófst þegar ný lota.

“Almenna yfirferðin hefur þjónað þeim tilgangi að vera verkfæri í þágu breytinga og boðið upp á nýjungar, gagnsæi og samvinnu og gert kleyft í fyrsta skipti í sögunni að fara yfir stöðu mannréttinda í öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna á jafnréttisgrundvelli,” sagði Navi Pillay, Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna haustið 2011 þegar fyrstu umferð yfirferðar allra ríkjanna lauk.

Pillay benti á að hinn eini sanni mælikvarði á árangur séu jákvæðar breytingar í þá átt að fólk njóti mannréttinda sem komi í kjölfar yfirferðarinnar; lagabreytingar, stefnubreytingar og breyttar starfsaðferðir.   

“Yfirferðin hefur staðið undir því nafni að vera almenn og ná til alls heimsins því farið hefur verið í saumana á mannréttindum í öllum 193 aðildarríkjunum. Almannasamtök (NGOs) á hverjum stað, auk svæðisbundinna og alþjóðlegra samtaka, hafa tekið virkan þátt í þessu starfi. Um 80% sendinefnda ríkja hafa verið undir forystu ráðherra sem komu sérstaklega til Genfar vegna yfirferðarinnar. Þetta sýnir ljóslega hve mikla áherslu aðildarríkin leggja á þetta ferli,” sagði Pillay.  
Pillay benti einnig á að þessi yfirferð hefði reynst þarfaþing fyrir ríki bæði innan sinna vébanda og á alþjóðavettvangi með því að vera rammi þar sem einstakar einingar innan ríkja og borgaralegt samfélag geta ræðst við auk þess sem samvinna milli ríkja hafi verið efld og þau hafi skipst á góðum fordæmum.  

“Það er mér hvatning að almenna yfirferðin hefur reynst hvati breytinga,” sagði hún. Þúsundir ráðlegginga hafa verið festar á blað og í framtíðinni er nauðsynlegt að þær verði markvissar og uppbyggilegar ef ferilið á að skila árangri.  “Hinn eini sanni mælikvarði eru þó jákvæðar breytingar í verki.”

Krúnudjásnin

Segja má að umbætur á mannréttindastarfi Sameinuðu þjóðanna með tilkomu nýja ráðsins hafi verið komnar í gagnrið 2007, en þá höfðu nefndir og stofnanir verið settar á stofn, en auk hinnar almennu yfirferðar sem nefnd hefur verið, var komið á fót Ráðgjafanefnd; eins konar hugveitu ráðsins sem sér því fyrir sérfræðiþekkingu um tiltekin mannréttindamál.

Einnig var komið á fót Kæruferli sem gerir einstaklingum og samtökum kleyft að beina kvörtunum um mannréttindabrot á framfæri við ráðið. Innan starfs Mannréttindaráðsins rúmast svokallaðar Sérstakar málsmeðferðir (UN Special procedures), en það eru nefndir, vinnuhópar og embætti sérstakra erindreka sem helguð eru einstökum málefnum (pyntingum, réttindum barna, aðgang að hreinu drykkjarvatni og svo framvegis). Þetta starf kallaði Kofi Annan þáverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, “krúnudjásn” gömlu Mannréttindanefndarinnar en hann lagði áherslu á að Mannréttindaráðið héldi fast í þessar stofnanir þótt hann hefði gagnrýnt margt annað í fari nefndarinnar.