Mikilvægur árangur hefur náðst

0
441

MDG6 EN

9. júlí 2014. Bryndís Eiríksdóttir, hagfræðingur og starfsnemi hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna birt athyglisverða grein í gær í Fréttablaðinu.

Þar fer hún í saumana á skýrslunni sem birt var 7. júlí um stöðu Þúsaldarmarkmiðanna um þróun og bendir á að tekist hefur að draga úr fátækt, auka aðgengi að drykkjarvatn og bæta lífsskilyrði íbúa í fátæktarhverfum stórborga. Greinin fylgir hér á eftir. 

Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna – mikilvægur árangur hefur náðst

Bryndís Eiríksdóttir, skrifar: 

Bryndís EiríksdóttirÞann 7. júlí síðastliðinn kom út árleg skýrsla Sameinuðu þjóðanna um stöðu þúsaldarmarkmiðanna. Fjórtán ár eru nú síðan að markmiðin voru samþykkt á svokölluðum þúsaldarfundi árið 2000. Markmiðin eru átta talsins með mælanlegum og tímasettum undirmarkmiðum sem eiga að nást fyrir lok ársins 2015. Tilgangurinn er að stuðla að bættum hag mannkyns um allan heim með því að draga úr hungri og fátækt í heimnum, efla þróun, mannréttindi og umhverfisvernd. Í skýrslunni er farið yfir hvert markmið fyrir sig og þær framfarir sem hafa átt sér stað. Einnig er fjallað um þau markmið þar sem lítið hefur áunnist. Í skýrslunni er kveðið á um mikilvægi þess að áreiðanleg gögn séu til staðar til að hægt sé að mæla og meta árangur

MDG8 ENMikilvægur árangur Frá því að þúsaldarmarkmiðin voru samþykkt hefur náðst mikill árangur. Niðurstöður skýrslunnar sýna að samstilltar aðgerðir ríkisstjórna, alþjóðasamfélagsins, borgarasamfélaga og einkageirans hafa borið árangur. Samkvæmt skýrslunni hefur tekist að ná mörgum undirmarkmiðum eins og að draga úr fátækt, auka aðgengi að drykkjarvatni og bæta lífsskilyrði íbúa í fátæktarhverfum stórborga. Einnig hefur hlutfall mæðradauða í heiminum lækkað um 45% frá árinu 1990. Á undanförnum 20 árum hafa líkurnar á að barn deyi fyrir 5 ára aldur lækkað um næstum helming sem þýðir að um 17.000 börnum er bjargað daglega. Skólaganga barna hefur aukist en 90% barna á grunnskólaaldri í þróunarlöndum ganga í skóla og þátttaka stúlkna í skólum hefur einnig aukist. Betra aðgengi að meðferð við HIV er talið hafa bjargað um 6.6. milljón mannslífa frá árinu 1995. Þess má einnig geta að mikill árangur hefur náðst í því að draga úr útbreiðslu berkla og malaríu í heiminum.

Enn er þó langt í landMDG7 EN Þrátt fyrir þann árangur sem þegar hefur náðst er enn langt í land á öðrum sviðum. Ekki er talið víst að markmiðið um að fækka um helming þeim íbúum heims sem búa við hungursneyð náist fyrir lok ársins 2015, nema með verulega auknu átaki á komandi ári. Í skýrslunni kemur fram að helsta dánarorsök ungra barna er ýmsir sjúkdómar sem hægt er að koma í veg fyrir, sama á við um helstu orsakir mæðradauða en árið 2013 dóu um 300.000 konur í heiminum við barnsburð eða á meðgöngu. Vannæring meðal ungra barna hefur minnkað en samt sem áður er talið að um 162 milljón börn séu vannærð sem er óásættanlegt ástand. Þrátt fyrir aukna þátttöku barna í skólum eru ennþá 58 milljón börn ekki í grunnskóla og hlutfall brottfalla úr skólum er hátt. Helmingur þessara barna sem ekki eru í grunnsskóla búa á átakasvæðum. Einnig kemur fram í skýrslunni að þrátt fyrir miklar framfarir í að bæta aðgengi og áreiðanleika tölfræðigagna er upplýsingaöflun enn ófullnægjandi í mörgum löndum.

Hvað tekur við eftir 2015? Mikil vinna er nú í gangi hjá Sameinuðu þjóðunum við að móta ný þróunarmarkmið sem munu taka við eftir árið 2015. Í skýrslunni segir að áframhaldandi framfarir næstu mánuði séu nauðsynlegar og munu byggja sterkan grunn fyrir nýja þróunaráætlun. Nú þegar einungis eitt ár er til stefnu þarf að setja aukinn kraft í vinnuna og sameiginlegt átak allra þjóða er nauðsynlegt til að hægt sé að ná þúsaldarmarkmiðunum fyrir lok árs 2015 og bæta lífskilyrði fólks í heiminum.

Skýrsluna má nálgast hér.