Moskítónet stöðva „hljóðláta morðingjann”

0
399
Malaria Flickr Gates Foundation

Malaria Flickr Gates Foundation
25. apríl 2015. Fjöldi þeirra sem deyr af völdum mýrarköldu hefur minnkað um helming frá því í byrjun aldarinnar.

Ástæður fyrir þessum góðu fréttum eru ekki síst útbreiðsla rúmneta sem hafa verið húðuð með skordýraeitri. Aðgangur að greiningu og skilvirk meðferð eru einnig þung á metunum.

Árið 2013 hafði næstum helmingur allra þeirra sem voru í mestri hættu að smitast af mýrarköldu (malaríu) í Afríku sunnan Sahara, aðgang að húðuðum moskítónetum, en hlutfallið var aðeins 3% árið 2014. Sama ár höfðu 319 milljónir aðgang að skyndiprófum til að greina mýrarköldu en aðeins 46 milljónir höfðu það fimm árum fyrr, árið 2009.

Vinnum bug á mýrarköldu-bandalagið (Roll Back Malaria) hefur staðfest að 64 af 97 ríkjum gætu náð því marki Þúsaldarmarkmiðanna um þróun (MDGs) að stöðva fjölgun og vinna á fjölda mýrarköldutilfella fyrir lok árs 2015.

Í stuttu máli sýkjast færri en áður af mýrarköldu og fleira fólk fær nauðsynleg lyf.

„Við þurfum að útvega öllum þeim sem eiga á hættu að sýkjast af mýrarköldu í Afríku sunnan Sahara, rúmnet úðuð með skordýraeitri, ekki aðeins helming fólksins,” segir Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni af Alþjóða mýrarköldudeginum í dag, 25.apríl.

Að mati Sameinuðu þjóðanna kostar 100 milljónir Bandaríkjadala að vinna bug á sjúkdómum sem smitast með biti moskítóflugna fyrir árið 2030. Þetta kann að virðast há fjárhæð en hafa ber í huga að með þessu móti má bjarga tólf milljón mannslífum og efnahagslegur ávinningur er talinn nema um 270 milljörðum dala í Afríku sunnan Sahara einni saman.

Mynd: Flickr/Gates foundation.