Norðurlandabúi mánaðarins

0
439

Ulf Björnholm main pic RESIZED

Ulf Björnholm, yfirmaður Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna í Brussel er þaulreyndur sérfræðingur í umhverfismálum og sjálfbærri þróun. Hann starfaði hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og hjá sænsku stjórninni bæði heima og erlendis áður en hann gekk til liðs við UNEP á síðasta ári. Björnholm er Norðurlandabúi mánaðarins hjá SÞ í nóvember. 

Hvers vegna gekkst þú til liðs við Sameinuðu þjóðirnar eftir margra ára starf hjá Evrópusambandinu?
Ég hafði áður unnið hjá fastanefnd Svíþjóðar hjá Sameinuðu þjóðunum og þegar ég vann í sænsku stjórnsýslunni þá vann ég við að fylgja eftir Rio-ráðstefnunni. Ég eiginlega smitaðist af því að vinna við málefni sem tengdust Sameinuðu þjóðunum. Ég trúi því að við þurfum að leita sameiginlegra alheims-lausna á margslungnum vandamálum veraldarinnar. Mér finnst það vera forréttindi að starfa við það sem ég trúi á. Það eru þó kostir og gallar. Þegar maður er að vinna heimafyrir eru verkefnin áþreifanlegri. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er starfið meira abstrakt, það er lengri leið til að ná þeim árangri sem maður vill. En það er mikilvægt að hafa hnattrænt sjónarhorn þegar maður vinnur við sjálfbæra þróun, svo dæmi sé tekið.

Hvað er áhugaverðast við starfið?

Það heilar mig mest að ég er eins konar sendiherra UNEP, Umhverfisstofnunarinnar. Skrifstofa okkar í Brussel er tengslaskrifstofa og brú til Evrópusambandsins. Stundum felst starfið í að þýða mál Sameinuðu þjóðanna yfir á mál Evrópusambandsins og öfugt, til þess að greiða fyrir samskiptum. Í stórum dráttum þá hafa UNEP og ESB sömu markmið í umhverfismálum. En við höfum mismunandi aðferðir, öðruvísi stofnanir og önnur hlutverk. En við bætum hvort annað upp og því meir því nánar sem við vinnum saman. Ég starfa svo náið með ESB að ég vinn nánast meira með þeim en kollegum mínum hjá UNEP eins fáránlegt það kann að hljóma. En það er samt rökrétt að mörgu leyti. Þekking á ESB er ekki mikil innan UNEP og ég reyni að bæta úr því með því að leggja brýr á milli og greiða fyrir samræðu.

Er eitthvað sérstaklega norrænt í þínu starfi?

Ulf BjörnholmÉg er vanur sænsku skipulagi jafnt frá starfi mínu í Stokkhólmi, New York og einnig ESB sendiráðinu hér í Brussel, sem felst í flötu skipulagi, þar sem fólk starfar hlið við hlið og leysir mál með samræðum í stað valdboðs og goggunarraðar. Þetta er ólíkt Sameinuðu þjóðunum þar sem goggunarröð ræður ríkjum og margar formlegar reglur sem fylgja verður. En ég reyni ekki að breyta sjálfum mér og læt minna reyna á valdboðið en gengur og gerist og það hefur ekki alltaf verið auðvelt. En ég finn að það er farið að borga sig smátt og smátt, þannig að þetta virkar líka innan Sameinuðu þjóðanna. Það er orðskviður sem mér líkar og það er að sýna gott fordæmi – ”leading by serving”. Í því felst að vera fyrirmynd og að reyna að halda uppi stöðugri samræðu í stað þess að skipa fólki fyrir.

Hvað er stærsta verkefni sem UNEP glímir við?

Ég held að stærsta áskorunin sé að brúa bilið á milli verkefna okkar og úrræðanna sem við búum yfir. UNEP er ekki stór stofnun, við erum innan við eitt þúsund starfsmenn um allan heim. Verkefnin eru tröllaukin. Starf okkar felst í því að reyna að efla græna hagkerfið. Við reynum að ýta verkefnum úr vör i samstarfi við aðra, í stað þess að reyna að koma á fót stórverkefnum á eigin spýtur. En ég viðurkenni að stofnunin ræður ekki við að gera allt sem við viljum gera. Við höfum ekki næg úrræði og það er stöðug barátta að útvega fé og mannskap.
En að þessum orðum sögðum, þá höfum við fengið miklu áorkað í samvinnu við aðildarríki, ESB, við veitum ráð, stuðning, gerum greiningar.En stundum finnst manni þetta allt vera ófullnægjandi.

Hafa Norðurlöndin sameiginlega sýn á hverju Loftslagsráðstefnunni COP21 ber að áorka?

Norðurlönd hafa mjög ákveðna afstöðu og vilja knýja í gegn metnaðarfullan loftslagssáttmála. Það mistókst í Kaupmannahöfn og nú erum við komin að vatnaskilum og tími til kominn að ganga frá sáttmála sem virkar og greiðir leið fyrir þróun í rétta átt. Ég hef enga trú á að það takist að leysa öll vandamál í París eða að fundurinn leiði til niðurstaðna sem við finnum fyrir hér og nú. Ég tel hins vegar að samkomulag sé nauðsynlegur þáttur í þjóðfélagsþróun næstu 20-30 ára. Og ef fundurinn misheppnast held ég að slagkrafturinn minnki í því sem nú þegar er í gangi. Það þarf að búa til eins skýran ramma og hægt er, ella verður erfiðara að hrinda breytingum í framkvæmd.

(Nóvember 2015)