Norðurlönd haldi áfram samráði innan SÞ

0
457

Utanríkisráðherrar Norðurlanda 3-sept-2013

16.september 2013. Félög Sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndum gagnrýna hugmyndir Carls Bildts, utanríkisráðherra Svía um að hverfa eigi frá norrænni samvinnu um málefni SÞ og samræma þau heldur innan ESB. Þetta kemur fram í sameiginlegri grein formanna félaganna, þar á meðal Þraster Freyst Gylfasonar, formanns íslenska félagsins, sem birtist í dagblöðum á Norðurlöndum.

Greinin birtist hér á eftir í heild:

Norðurlöndin eiga erindi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna

Einmitt nú er mikið rætt um mikilvægi þess að styrkja norræna samvinnu. Því eru ummæli utanríkisráðherra Svíþjóðar, Carls Bildts, um að hverfa eigi frá norrænni samvinnu um málefni SÞ og samræma þau heldur innan ESB, bæði órökrétt og óheppileg. Með samstarfi um málefni SÞ taka Norðurlöndin sýnilega ábyrgð á störfum Sameinuðu þjóðanna. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir Ísland og Noreg sem eru ekki í ESB.

Norðurlöndin hafa margt fram að færa í samstarfi Sameinuðu þjóðanna. Framlag þeirra til mannúðarstarfs SÞ er stórt, þau eru í forystu í mannréttindamálum – ekki síst stúlkna og kvenna – og þau hafa gott orðspor. Margir Norðurlandabúar hafa, allt frá því að Tryggvi Lie og Dag Hammarskjöld voru framkvæmdastjórar SÞ, verið í áberandi stöðum innan kerfis SÞ. Martti Ahtisaari, fyrrum forseti Finnlands, hefur lagt mikið af mörkum sem sáttasemjari á vegum SÞ, hin danska Ellen Margrethe Løj er sérstakur sendifulltrúi SÞ í Líberíu og okkar eigin Vigdís Finnbogadóttir er velgjörðarsendiherra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.

Á Norðurlöndunum er fyrir hendi stofnanaþekking og drifkraftur sem er þörf á til að endurbæta og styrkja Sameinuðu þjóðirnar. Því er óheppilegt hve áberandi fjarvera Norðurlandanna í valdamestu stofnun SÞ, öryggisráðinu, hefur verið á síðustu árum. Ísland tapaði kosningum til öryggisráðsins 2008 fyrir Austurríki og Tyrklandi en litlu munaði að Finnand kæmist inn síðasta haust þegar það atti kappi við Ástralíu og Lúxemborg. Á sama tíma mistókst Svíþjóð að ná sæti í Mannréttindaráði SÞ.

Alþjóðlega friðarstofnunin, IPI, lagði nýlega mat á framboð Finnlands til öryggisráðsins. Í skýrslu IPI er staðfest að orðstír Norðurlandanna sé góður og að þau séu mikils metin innan SÞ. Það er að hluta tengt ríkum vilja þeirra til að leggja sitt af mörkum og að þau séu laus við dulda hagsmuni. Norræna módelið skiptir verulega miklu máli, en þegar fleiri ríki og samfélög keppa um athygli þarf bæði pólitískan vilja og sjálfstraust til að markaðssetja sig, segir IPI.

Norðurlöndin hafa að einhverju leyti ólíka nálgun í alþjóðasamstarfi, en mörg atriði sameina þau. Þar á meðal er þróun alþjóðalaga, jafnréttismál og viljinn til að koma í veg fyrir átök. Sterk norræn gildi eru verndun mannréttinda, sjálfbær þróun, straumlínulögun þróunarsamvinnu og aukin skilvirkni og gegnsæi í starfi SÞ, svo dæmi séu tekin. Norðurlöndin geta einnig lagt af mörkum til nútímalegrar þróunar á öryggisráðinu og starfsháttum þess.

IPI ráðleggur Finnlandi að draga ekki úr þátttöku sinni innan SÞ eftir tapið í kosningum um sæti í öryggisráðinu, heldur þvert á móti tvíeflast í t.d. samningaviðræðum og við lausn átaka. Öll Norðurlöndin þurfa að beita sömu nálgun. IPI undirstrikar einnig þörfina á að koma betur á framfæri skuldbindingum og árangri í alþjóðasamstarfi, að setja skýrari markmið í þróunarsamvinnu, byrja kosningabaráttu snemma og vera ákveðin.

Með því að leggja meira af mörkum til friðargæslu SÞ geta aðildarríkin styrkt stöðu sína innan SÞ, segir í skýrslunni. Norðurlöndin hafa í dag einungis 288 manns í friðargæsluaðgerðum sem leiddar eru af Sameinuðu þjóðunum, þrátt fyrir góðan orðstír í friðargæslustörfum. IPI leggur til að Finnland leggi meira af mörkum til lausna átaka í Afríku. Sama verkefni er á dagskrá sænsku ríkisstjórnarinnar sem samþykkti nýlega að senda 70 friðargæsluliða til Malí. Því þyrfti að fylgja eftir með enn frekara frumkvæði.

Einmitt nú er mikið rætt um mikilvægi þess að styrkja norræna samvinnu. Því eru ummæli utanríkisráðherra Svíþjóðar, Carls Bildts, um að hverfa eigi frá norrænni samvinnu um málefni SÞ og samræma þau heldur innan ESB, bæði órökrétt og óheppileg. Með samstarfi um málefni SÞ taka Norðurlöndin sýnilega ábyrgð á störfum Sameinuðu þjóðanna. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir Ísland og Noreg sem eru ekki í ESB.

IPI-skýrslan hringir bjöllum á Norðurlöndum og er ákall um endurnýjaðan stuðning við SÞ. Sænska ríkisstjórnin tilkynnti fyrir níu árum um framboð sitt í sæti í öryggisráðinu 2017-2018. Til að standa undir slíku framboði þarf fjármagn, mannafla og umfram allt pólitískan vilja. Með afdráttarlausum vilja, skýru upphafi á kosningabaráttu og stuðningi frá grannríkjunum gæti gilt fyrir Norðurlöndin að allt er þegar þrennt er, varðandi þátttöku í öryggisráði SÞ.

————-

Greinin birtist á Norðurlöndunum, föstudaginn 13. september 2013.

Þröstur Freyr Gylfason
formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Aleksander Gabelic
formaður Félags SÞ í Svíþjóð

Helga Hjetland
formaður Félags SÞ í Noregi

Jørgen Estrup
formaður Félags SÞ í Danmörku

Sofia Vikman
formaður Félags SÞ í Finnlandi

Mynd: Utanríkisráðherrar Norðurlanda á fundi í Svíþjóð 3. september (Utanríkisráðuneytið).