Norðurlöndin gjafmild – en Ísland langt á eftir

0
494
Foto-Det-gavmilde

Foto-Det-gavmilde

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hvaða ríki eru örlátust við umheiminn? Norðurlönd eru framarlega í flokki á nýjum lista yfir framlög tuttugu og sjö ríkustu landa heims til þróunar á ýmsum sviðum.

 

Miðað við höfðatölu eru Danir í fyrsta sæti, Norðmenn í öðru, Svíar í þriðja og Finnar í sjöunda sæti á þróunarlista sem Center for Global Development birti 15. október og nefnist Commitment to Development Index (CDI). Tölurnar eru miðaðar við upplýsingar frá DAC og OECD en Ísland tekur ekki þátt í þeirri tölfræði samkvæmt upplýsingum Þróunarsamvinnustofnunar.  

Ríkjunum 27 er raðað með tilliti til örlætis í sjö flokkum en þeir eru þróunaraðstoð, viðskipti, fjárfestingar, fólksflutningar, umhverfismál, öryggismál og tækni. Danir eru með besta meðaltalið og eru einnig  á toppnum í öryggismálaflokknum og vegur þar þyngst myndarlegt  framlag til friðargæslu og aðild að alþjóðlegum öryggismálasáttmálum.  

Christian Friis Bach, þróunarráðherra Danmerkur segir um niðurstöðuna. ”Það er auðvitað ánægjulegt að hið víðtæka þróunarsamstarf Dana nýtur viðurkenningar á alþjóðavettvangi. Við erum númer eitt á listanum samtals og dönsk þróunaraðstoð er talin vera í háum gæðaflokki. Mestu skiptir að það þýðir að áþreifanlegur árangur er að nást í þágu fátækasta fólks heims.”   

Noregur er þó rausnarlegast Norðurlandanna í hreinum framlögum til þróunaraðstoðar og deilir fyrsta sætinu á heimsvísu með Lúxemborgurum en hvor þjóð fyrir sig ver 1.1 prósenti landsframleiðslu til þróunarsamvinnu.

Svíþjóð er ofarlega á blaði í mörgum flokkum og er sérstaklega hátt skrifuð með því að hafa minnsta losun CO2 á hvert mannsbarn. Þá er Svíþjóð eitt þeirra ríkja sem hjálpar mest flóttamönnum af mannúðarástæðum.

Finnland er ofarlega á blaði í umhverfismálum,en þar er lítil losun koltvíserings og lítil notkun á efnum sem eyða ósonlaginu.  

Danmörk, Noregur og Svíþjóð eru í hópi fimm ríkja sem náð hafa takmarki Sameinuðu þjóðanna um að amk. 0.7% landsframleiðslu renni til þróunaraðstoðar. Hin ríkin tvö eru Holland og Lúxemborg.

Tölur frá Íslandi lágu ekki fyrir við gerð þessa lista. Hins vegar er ljóst að hvað þetta varðar er Ísland langt á eftir nágrannaríkjum sínum. Alþingi hefur nýverið samþykkt talsverða hækkun framlaga til þróunarsamvinnu með það fyrir augum að hún nái 0.25% árið 2013.  

Mynd: Danida/Klaus Holsting.