Ný átök í Darfur

0
501
Darfur

Darfur

26. febrúar 2013. Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsaðilar þeirra í Súdana hafa útvegað neyðaraðstoð og flutt særða óbreytta borgara á brott frá bæ í norðvesturhluta Darfur. 60 þúsund manns hafa leitað skjóls þar á flótta undan átökum um yfirráð yfir gullnámum.
 Friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandsins í Darfur (UNAMIT) skýrir frá því að átök hafi blossað upp í síðustu viku á milli tveggja ættbálka, Abbala og Beni Hússein á Aji Heir svæðinu um það bil tíu kílómetra frá El Sereaf, en þangað hafa óbreyttir borgarar flúið.

“Sameiginlegt markmið okkar ásamt ríkisstjórninni og UNAMID og öðrum samstarfsaðilum í héraðinu, er að tryggja öryggi og vernd allra óbreyttra borgara og útvega eins mikla mannúðaraðstoð og hægt er, “ segir Ali Al-Za’tari, samræmandi mannúðaraðstoðar og fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Súdan í yfirlýsingu.
Hættuástandið í El Sireaf og í norður Darfur má rekja til átaka á milli ættbálkanna tveggja sem blossuðu fyrst upp 5. janúar á Jebel Amir svæðinu í norður Darfur en hundrað þúsund manns fluðu átökin.

Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsaðilar fluttu 700 tonn matvæla og annarar neyðaraðstoðar til aðstoðar flóttafólkinu í síðasta mánuði.
Al-Za’tari sagði að ofbeldisaldan væri “enn eitt dæmið” um hversu berskjaldaður almenningur væri á þessum slóðum og varaði við því að enn fleiri ættu eftir að lenda á vergangi ef ekki tækist að leysa deiluna. Meir en 50 manns hafa látist og fjöldi særst í þessum síðustu skærum í Darfur.
 
Mynd: Flóttafólk leitar skjóls í opinberum byggingum í El Sireaf. UNAMID /Sojoud Elgarrai