Kongó-samningur eykur vonir um frið

0
536

banaddis

25. febrúar 2013. Vonir hafa glæðst um frið og stöðugleika í Lýðveldinu Kongó (DRC) eftir að ellefu ríki undirrituðu rammasamning um frið í gær.
Auk ríkjanna ellefu gangast Sameinuðu þjóðirnar og Afríkusambandið í ábyrgð fyrir samkomulagið auk 14 ríkja Þróunarsamfélags Suður Afríku (SADC). Sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna verður skipaður fljótlega til að styðja við framkvæmd samkomulagsins.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti leiðtoga Afríkuríkja á svæðinu til þess að veita samkomulaginu varanlegan stuðning á æðstu stigum. Hann lagði áherslu á að undirritun samkomulagsins væri stór stund en þó aðeins byrjun á “heildstæðri nálgun sem krefjist varanlegrar viðleitni.”
Ban sagði við undirritun samningsins í Addis Ababa í Eþíópíu að samningsaðilar hefðu samþykkt að virða og vernda fullveldi og landamæri Kongó auk þess að stuðla að friði og stöðugleika Kongó.
Framkvæmdastjórinn sagði að sér hefði verið verulega brugðið yfir ofbeldinu sem blossaði upp í austurhluta Kongó í apríl þegar M23 hreyfingin hljópst undan merkjum í kongólska hernum. Nærri ein milljón manna flosnaði upp í Norður-Kivu í átökum hreyfingarinnar við stjórnarherinn og meir en 300 þúsund flúðu átök í Katanga héraði.
 
Mynd: Ban Ki-moon ásamt forsetunum Kagame frá Rúanda, Kabila frá Kongó og Museveni frá Úganda. SÞ/Eskinder Debebe.