Ný byrjun fyrir næstu nýbylgju í efnahagsmálum

0
441
alt

eftir Cheick Sidi Diarra

Ímyndið ykkur að þið séuð stödd í hópi alþjóðlegra fjárfesta og forstjóra og þið hafið tækifæri til að segja þeim frá nánast ónýttum fjárfestingarmöguleikum.

altÞið gætuð sagt þeim frá nærri 50 ríkjum sem hafa notið á bilinu 6 til 7 prósenta hagvaxtar að meðaltali á ári nærri allan síðastliðinn áratug. Meira að segja í niðursveiflunni árið 2009 var hagvöxturinn rúmlega 4 prósent. Flest þeirra búa yfir einni eða fleiri náttúruauðlindum sem eru í háu verði þessa dagana, svo sem olíu, málmum, korntegundum og ræktanlegu landi. Flestar ríkisstjórnanna hafa hrint í framkvæmd fjárfestingavænum efnahagslegum umbótum og vinnuaflið er ungt og skapandi.

Samt sem áður er nóg pláss fyrir ný fyrirtæki. Það má kalla þessi ríki “nýbylgjuna” í efnahagsmálum en samt sem áður laða þau nú að sér aðeins um eitt prósent af fjárfestingum í heiminum. Samanlagður íbúafjöldinn er næstum 900 milljónir og er næstum óplægður akur fyrir markaðssetningu neytendavöru í stórum stíl – öfugt við önnur þróunarríki í hröðum vexti.

Þú myndir réttilega segja að kostirnir væru margir.

 Ímyndaðu þér nú að þú hefðir orðið á fundi veitenda þróunaraðstoðar og mannúðarsamtaka.  Þú yrðir að segja þeim frá því að til væru ríki sem stæðu einna höllustum fæti efnahagslega í heiminum: tekjur á mann væru um 500 Bandaríkjadalir – ekki á viku eða mánuði heldur á ári. Helmingur íbúanna lifi á rétt rúmlega einum dali á dag. Hungur, ólæsi og smitsjúkdómar væru landlæg og yfirvöld hefðu ekki bolmagn til að bregðast við náttúruhamförum. Ríkisstjórnir væru oftar en ekki að glíma við nýbúin eða yfirstandandi átök innanalands og vissu ekki sitt rjúkandi ráð.

Þessar hliðar eru uppi á teningnum á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Istanbúl 9. til 13. maí. Þú kannt að hafa getið þér til um að þessir tveir ríkjahópar eru einn og hinn sami. Á stofnanamáli Sameinuðu þjóðanna eru þau 48 “minnst þróuðu ríki heims” (“least developed countries”, LDCs.) Þrjátíu og þrjú þeirra eru í Afríku sunnan Sahara; 14 í suður-Asíu og Eyjaálfu og eitt (Haítí) er á vesturhveli jarðar.

Að mínu mati eru málefni minnst þróuðu ríkjanna næsta stóra verkefni hnattvæðingarinnar og getur brugðið til beggja vona.

Undanfarna tvo áratugi höfum við séð uppgang rísandi efnahagskerfa á borð við Brasilíu, Kína, Indland og Indónesíu. Þúsaldarmarkmiðunum um þróun sem miða að því að helminga sárafátækt hefur verið náð innan tímamarka í heiminum. Þessi velgengni skapar möguleika fyrir þau ríki sem eftir sitja í greipum viðvarandi fátæktar. Þetta er ef til vill besta tækifæri þeirra á síðari tímum.

Fólk um allan heim er meðvitað og jákvætt í garð alþjóðlegrar viðleitni til að berjast gegn fátækt, sjúkdómum og ólæsi og vernda náttúruna. Fjárfestar eru nú mun fúsari en áður til að láta til sín taka á heimsvísu og hinir nýju fjárfestar heimsins frá hinum rísandi veldum á suðurhveli jarðar eru á góðri leið með að verða helstu viðskipta- og fjárfestingafélagar minnst þróuðu ríkjanna.

Það er líka mannúðarmál ef minnst þróuðu ríkin rífa sig upp úr þróunarstöðnun og er hagur okkar allra. Það eru framfaraspor sem einnig koma okkur öllum til góða með því að hindra hættuástand um allan heim af völdum staðbundins óstöðugleika, ofbeldis öfgamanna, alþjóðlegrar glæpastarfsemi og smitsjúkdóma. G-20 ríkin sækjast eftir því að efla efnahagsstarfsemi lágtekjuríkja og deila hagvexti, í því skyni að auka jafnvægi í efnahagsmálum heimsins og að opna nýja markaði, að því er fram kemur í Seoul yfirlýsingu þeirra.

Í nýlegri skýrslu sem tekin var saman undir stjórn Alpha Konare, fyrrverandi forseta Malí og  James Wolfensohn, fyrrverandi forstjóra Alþjóðabankans er bent á að ef ekki verði að gert, skapist hættuástand samfara því að heimshlutar þróist í mismunandi áttir: annars vegar þróuð ríki og rísandi og hins vegar fátæk ríki með meir en milljarð íbúa árið 2020.

Þetta átak útheimtir samstarf og samhæfðar aðgerðir á tveimur vígstöðvum. Aðstoðar er þörf til að mæta mannlegum grundvallar þörfum og skapa frjóan jarðveg fyrir alþjóðlega og staðbundna fjárfesta.Ég tel að varanlegur efnahagsvöxtur sé öruggasta leiðin til þess að kennitölur um mannlega þróun batni. Ég tel að aðstoð sem slík nægi ekki til þess að þetta gerist.

Forysta hóps minnst þróuðu ríkjanna verður að beita sér fyrir áframhaldandi umbótum, meðal annars með heildstæðum þróunaráætlunum í hverju ríki þar sem tekið er tillit til dreifbýlis jafnt sem þéttbýlis, félagslegra þarfa og efnahagsgetu og innri hagvaxtar.

Fyrir Istanbúl ráðstefnunni liggur að samþykkja nýja aðgerðaáætlun til að taka við af þeirri sem samþykkt var í Brussel fyrir tíu arum. Það er kominn tími til að stokka spilin og leggja á ráðin um nýja byrjun minnst þróuðu ríkja heims.

Cheick Sidi Diarra er aðstoðar-framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og Hátt settur fulltrúi fyrir minnst þróuðu ríkin, landlukt þróunarríki og lítil þóunar-eyríki. Þessi grein hefur birst í ýmsum dagblöðum um allan heim undanfarna daga.