Óháðir dómstólar

0
620
Forgangsverkefni í þágu mannréttinda

Friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna er oft getið í heimsfréttunum, en þúsundir annarra starfsmanna SÞ vinna í kyrrþey og í átakaminna umhverfi að því að viðhalda friði í heiminum.

Fyrsta skref SÞ til aðstoðar varðar grundvallarmannréttindi svo sem matvælaaðstoð, heilbrigðisþjónustu og menntun. Næsta skref SÞ er aðstoð við að enduruppbyggja stjórnkerfið – sérstaklega enduruppbyggingu réttarkerfisins.

Samhengið milli friðargæslu og réttarkerfis var þegar viðurkennt í sáttmála SÞ árið 1945. Í inngangi sáttmálans segir að aðilar Sameinuðu þjóðanna ákváðu "að skapa skilyrði þar sem réttlæti og virðing fyrir þeim skyldum sem skapast við samninga og aðrar alþjóðlegar réttarreglur verði virtar".

Heimsyfirlýsingin um mannréttindi sem samþykkt var þremur árum seinna, hafði að geyma fjölda undirstöðureglna sem stuðla að mannvirðingu og félagslegu skipulagi. Í yfirlýsingunni segir að allir hafi jafnan rétt til verndar samkvæmt lögum, að sá sem sökum er borinn skuli teljast saklaus þar til sök hans er sönnuð eftir réttlátan réttargang fyrir "óháðum og óhlutdrægum dómstóli". Engan má taka fastan, hneppa í fangelsi eða varðhald né gera útlægan úr eigin landi.

Árið 1966 var samþykktur alþjóðlegur samningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Samningurinn leggur áherslu á lögfræðileg réttindi einstaklingsins – ekki aðeins sem formsatriði, heldur sem bindandi alþjóðleg lög. Hér er m.a. um að ræða réttinn til réttláts réttarhalds, ekki að þola ástæðulausa handtöku og ekki að hljóta afturvirkan dóm. Samningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt tveimur aukabókunum og samningurinn frá 1966 um efnahagsleg, félagsleg og mennngarleg réttindi mynda ásamt Heimsyfirlýsingunni frá 1948, hinn alþjóðlega lagagrundvöll um mannréttindi. (Bill of Human Rights).
{mospagebreak title=Lög veita varanlegan stöðugleika} 

Lög veita varanlegan stöðugleika

Samkomulag um alþjóða lagaréttindi felur í sér fjölda ráðstafana, allt frá samningu lagaregla til þjálfunar dómara og lögfræðinga og að færa réttarkerfi í nýrra horf, lögreglulið og fangelsi. Takmarkið er að skapa virðingu fyrir mannréttindum meðal löggjafa og lögreglufólks og að styrkja hlutverk þeirra sem verndara þessara réttinda.

Þetta er hægfara framkvæmd þar sem erfitt er að mæla daglegan árangur. Sérstaklega í löndum þar sem styrjöld hefur geisað og landið búið við hernaðarstjórnun og réttarkerfið þess vegna óvirkt. En áframhaldandi starfsemi til að bæta aðstæður hefur úrslitaþýðingu fyrir vonina um varanlegan stöðugleika.

Réttaröryggi og réttarreglur og venjur við réttláta meðferð þeirra sem grunaðir eru er næstum alltaf fyrsta fórnarlamb styrjalda. Ákæra, vörn og áfrýjun verður aðeins fræðilegur möguleiki eftir því sem átökin harðna. Að lokum hverfur hugtakið óháður úr orðaforða ákæranda, lögfræðinga og dómara. Réttindi hins ákærða gleymast.

Í staðinn eiga sér stað handahófskenndar handtökur og yfirborðslegar aftökur. Þeir sem taldir eru vera óvinir ríkisins hverfa þar að auki sporlaust. Lögregla og borgaraherlið skapa ótta hjá íbúunum í stað trausts og íbúarnir hætta að líta á þá sem verndara samfélagsins. Fangaverðir nota oft ofbeldi til að bæla niður uppþot og hindra flóttatilraunir.

Þegar friðurinn loksins kemur opnast dyrnar að meira frelsi og borgararnir þurfa að skipta um hugarfar til að þróa svo mikið tillit til yfirvalda að hægt sé að komast hjá meira ofbeldi.
{mospagebreak title=Fyrirmyndir fyrir löggjafa}

Fyrirmyndir fyrir löggjafa

Auk Heimsyfirlýsingarinnar um mannréttindi og alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi hafa SÞ sett fram nokkra staðla sem mynda grundvallarreglur fyrir óháð réttarfar. (Basic Principles on the Independence of the Judiciary).

Þessar grundvallarreglur voru samþykktar árið 1985 og leggja áherslu á að dómarar eiga að hafa rétt til að starfa án þrýstings og hótana með góð laun og með viðeigandi útbúnað og aðstoð til að vinna störf sín. Þótt þessar reglur hafi ekki þjóðréttarlegt gildi geta þær virkað sem hvatning fyrir löggjafa hvar sem er. SÞ mæla með því að reglurnar verði skráðar í stjórnarskrár og lög hinna einstöku þjóða.

Mörg lönd hafa formlega viðurkennt reglurnar og gefa reglulega skýrslu til SÞ um framvindu mála og vandamál. Í sumum tilvikum leita löndin aðstoðar hjá alheimssamtökum um menntun starfsfólks og eftirlit með málflutningi.

SÞ hafa einnig tekið saman grundvallarreglur fyrir lögfræðinga og leiðbeiningar fyrir ákærendur. Samtökin hafa ítrekað fordæmt yfirborðslegar og tilviljanakenndar aftökur. Árið 1984 var samningurinn um pyndingar og aðra ómannúðlega og niðurlægjandi meðferð og refsingu samþykktur. Jafnframt voru samdar lágmarksreglur um meðferð fanga.
{mospagebreak title=Hlutverk hins sérlega skýrslugjafa}

Hlutverk hins sérlega skýrslugjafa

Vegna vaxandi árása á lögfræðinga og dómara í mörgum löndum á árunum eftir 1990 og að því er virðist minnkandi virðingu fyrir mannréttindum, mælti Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna með því að valinn yrði sérlegur skýrslugjafi sem hefði eftirlit með þessum málefnum. Í apríl 1994 var Paran Cumaraswamy frá Malasíu valinn sem skýrslugjafi með það verkefni að auka hina alþjóðlegu meðvitund um leiðbeiningar og samninga sem fjalla um óháð réttarfar, hlutverk verjenda, kviðdóma og meðferð fanga.

Cumaraswamy sagði að mikilvægasta hlutverk hans sem sérlegs skýrslugjafa snerist um samskipti og kennslu. Í fyrstu skýrslu sinni til nefndarinnar árið 1995 skuldbatt hann sig til að vinna að því að kynna grundvallarreglur fyrir óháða dómstóla og að sjá til þess að vekja skilning á þessum grundvallarreglum.

"Í framtíðinni verður aukin þekking á lögfræðilegum stöðlum lykillinn að framförum" segir hinn sérlegi skýrslugjafi. Til að geta sinnt hlutverki sínu sem best óskar Cumaraswamy að fá stuðning frá breiðum hópi styrktaraðila meðal þjóðhöfðingja, mannréttindasamtaka og samtaka lögfræðinga. Hann lítur á sjálfan sig sem umbótafrömuð og sem viðræðuaðila á námsþingum, fundum og námsferðum.

Að mati hins sérlega skýrslugjafa eru tvær nýjar ógnanir gegn réttlátum dómstólum sem þarfnast sérstakrar athygli. Í fyrsta lagi hafa vaxandi hryðjuverk leitt til þess að einstök lönd hafa komið á fót sérstökum dómstólum með málflutningi sem ekki tekur tillit til réttlætis og sem ekki virðast óhlutdrægir. Í öðru lagi hefur hin gífurlega framför í samskiptatækni gert erfiðara að vega og meta málfrelsi og réttinn til réttláts réttarhalds. Sem sérlegur skýrslugjafi vonast Cumaraswamy til að geta verið hvatamaður að reynslu- og ráðgjafarskiptum milli ólíkra landa, með sérstaka áherslu á að forðast misnotkun réttarkerfisins. Umboð hans veitir honum rétt til að rannsaka nánar alvarlegar ásakanir um árásir á óháða dómstóla, lögfræðinga og önnur lögfræðileg embætti. Fyrsta skýrsla hans um einstök málefni – með niðurstöðum og tillögum hans – var lögð fram árið 1996.
{mospagebreak title=Frá raunveruleika til hugsjóna} 

Frá raunveruleika til hugsjóna

Skýrslugjafinn átti m.a. að hafa eftirlit með framvindu mála í vissum viðkvæmu löndum. Í löndunum Kambódíu, El Salvador, Haíti og Rúanda, er mikið starf unnið til að tryggja óháð réttarfar.

Kambódía
Khmer Rouge tóku völdin í apríl 1975 og svo að segja frá einum degi til annars breyttust bæir í Kambódíu í draugabæi. Þúsundir manna voru settir í þrælkunarbúðir. Hin menntaða yfirstétt, viðskiptafólk og heittrúaðir voru dæmdir til þrælkunarvinnu eða drepnir. Á fjórum árum voru yfir milljón manns drepnir. Sjöundi hver Kambódíubúi var annað hvort tekinn af lífi, lést í hinum svokölluðu "endurmenntunarbúðum" eða hvarf sem afleiðing sultar eða sjúkdóms. Árið 1978 gerðu herlið frá Víetnam innrás í landið og ráku hundruðir hungraðra og skelfingu lostinna Kambódíubúa í átt til landamæra Tælands þar sem margir voru drepnir. Styrjöldin í Kambódíu stóð yfir í 13 ár.

SÞ stuðlaði að því að samið var vopnahlé árið 1991 og gerður var friðarsamningur sem leiddi til stofnunar þjóðarráðs fjögurra aðila, Sihanouk fursti kom aftur til valda og komið var á frjálsum kosningum árið 1993. Bráðabirgðastjórn SÞ í Kambódíu (United Nations Transitional Authority in Cambodia, UNTAC) opnaði leiðir til enduruppbyggingar réttarkerfisins frá grunni. Þó að yfirráðum UNITAC hafi lokið 24. september 1993, var það þetta framlag Sameinuðu þjóðanna sem lagði grundvöll að þróun sem heldur áfram enn þann dag í dag.

Árið 1993 báðu allsherjarþingið og mannréttindanefndin Mannréttindamiðstöð SÞ um að opna skrifstofu í Phnom Pehn með minni útibúum í þremur landshlutum. Frá upphafi var styrking réttarkerfisins aðalmarkmið aðgerða SÞ Mannréttindamiðstöðin hefur meðal annars framkvæmt þessi störf á þann hátt að skipa erlenda ráðgjafa í dómstóla í Kambódíu til að endurmennta dómara og aðstoða þá.

Starf SÞ hefur ennfremur verið fólgið í samvinnu við þingið í Kambódíu um samningu nýrra laga um mannréttindi. Þetta hefur einnig falið í sér reglur um skipulag réttarfarsins.

Mannréttindamiðstöðin hefur sent út safn núverandi kambódískra laga til að auðvelda lögfræðilegu starfsfólki, löggjöfum og vísindamönnum starfið. Þar að auki hafa SÞ þýtt marga alþjóðlega samninga um mannréttindi yfir á Khmer tungumálið.

Mannréttindamiðstöð SÞ hefur einnig á þátt í því að tryggja fjárhagsaðstoð til réttarkerfisins í Kambódíu frá öðrum þjóðum og öðrum stuðningsaðilum. Lögfræðingasamtök í mörgum löndum hafa styrkt á margan hátt, m.a. með því að senda lagabækur og skrifstofubúnað.

Enn er eitt óleyst vandamál og er það hin lágu laun dómara í Kambódíu. Þeir þéna sem svarar 20 dollurum á mánuði – meðallaun fyrir opinbera starfsmenn en ekki nægileg til að framfleyta sér af. Aðrir sérfræðingar geta bætt laun sín með aukaverkefnum en það geta dómarar ekki hjá einkafyrirtækjum. Sérfræðingar SÞ hafa ráðlagt að launin verði hækkuð, ekki síst til að tryggja að dómararnir séu óháðir. Það getur liðið langur tími þar til þessi breyting á sér stað, en þegar hún á sér stað verður það framför.

Ríkisstjórnin ákvað að hóp "verjenda" – hópur sem kemur í stað varnarlögfræðinga, sem ekki eru til – skyldi fjarlægja úr réttarkerfinu. SÞ hvatti íbúa Kambódíu til að endurskoða þessa ákvörðun. Niðurstaðan varð sú að þjóðþingið breytti ákvörðuninni. Verjendur fengu að vera áfram, en aðeins til tveggja ára.

Verjendur hafa sjaldan nægan tíma eða möguleika á að rannsaka mál ýtarlega, að ræða við ákærða, yfirheyra vitni og flytja málið fyrir rétti. Samt sem áður eru aðilar sammála um að kerfið er réttmætara með þessari tegund verjenda en engum. Jafnframt hefur verið komið á framkvæmdaáætlun um að mennta kambódíanska lögfræðinga. Fyrsti hópurinn lauk námi árið 1995.

Haítí
Hin borgaralega sendisveit SÞ á Haítí hóf störf fáum dögum eftir innrás fjölþjóðaliða í september 1994. Íbúarnir voru haldnir hræðslu eftir undangengin ár þar með manndráp og mannhvörf sem herinn stóð að ásamt hliðhollum herliðum, glæpahópum og mútuþægum lögreglumönnum. Fólk var fjarlægt frá heimilum sínum og sumir sáust aldrei aftur. Aðrir voru settir í skítug, yfirfull fangelsi án þess að fá nokkuð að borða – og án upplýsinga um hvað þeir voru ákærðir fyrir.

Þegar Jean-Bertrand Aristides forseti sneri aftur til baka var það gert að forgangsverkefni að mynda lögreglulið sem þjálfað var til að virða mannréttindi og koma aftur á friði og lögum.

Undir forystu Sameinuðu þjóðanna aðstoðuðu Bandaríkin við að þjálfa hundruðir lögreglumanna; útvega þeim einkennisbúninga; lögreglukylfur; vopn, samskiptabúnað og sáu um flutning á þeim til hinna ýmsu staða þar sem þeir áttu að hefja störf.

Smám saman luku fleiri og fleiri menntun sinni og þá voru eldri lögreglumenn fjarlægðir úr störfum. Þeim var boðin endurmenntun til að gerast þátttakendur í nýja lögregluliðinu eða að vinna sem fangaverðir.

Margir hafa þörf fyrir aðstoð
Haítí hefur þörf fyrir hvers kyns aðstoð sem fyrir hendi er á réttar- og lögreglusviði. Kanada hefur tekið að sér að endurstofna 14 héraðsdómstóla og að láta í té skrifstofubúnað fyrir þá. Lögreglustöðvar og dómstólar hafa not fyrir skrifborð, stóla, síma, tölvur og pappír. Lögreglubifreiðir og aðrar opinberar bifreiðir skortir varahluti og oft er ekki til bensín fyrir þær.

Sex þeirra fangelsa sem voru í verstu ásigkomulagi hafa verið lagfærð – en enn bíða níu þess að fjármagn fáist til framkvæmda.Aðstoð til fangelsiskerfis Haítí kemur bæði frá skrifstofu SÞ, þróunarverkefni SÞ (UNDP) og Alþjóðaþróunarstofnun Bandaríkjanna (AID).

Lagaskólinn, Ecole de la Magistrature, opnaði í Port-au-Prince árið 1995. Í tilefni opnunarinnar héldu lögfræðingar á Haítí námsþing fyrir ákærendur, sem byggðist á efni frá lagaskóla í Bordaux í Frakklandi. Lagaskólinn starfar ennþá með styrkjum frá Frakklandi og SÞ.

Þeir sem frömdu mannréttindabrot og stofnuðu til öngþveitis á Haítí á árunum eftir 1990 verða leiddir fyrir rétt. Þjóðarráð Haítí hefur rannsakað fjölda tilfella um mannrán, árásir, pyndingar og morð. SÞ hafa veitt ráðinu virka aðstoð í þessu starfi.

El Salvador
Mikilvægar breytingar í réttarkerfi El Salvador – sem lengi var þekkt fyrir að vera óvirkt og hlutdrægt – hafa leitt til meira tillits meðal íbúanna til réttarkerfisins og hefur þannig átt þátt í að styrkja friðinn.

Undir forystu Sameinuðu þjóðanna fór fram fjöldi alþjóðlegra samningaumleitana frá árinu 1990 og gerðir hafa verið nokkrir stjórnmálalegir samningar, sem leiddu til friðar árið 1992, og veitti El Salvador frið í fyrsta sinn í áratugi. Friðarsamkomulagið nær ekki aðeins yfir hernaðarvandamál en einnig um kosningalög og nýjungar í þágu lausnar á alvarlegum deilum.

Kosningalögin höfðu að geyma ákvarðanir til að tryggja að hæstiréttur væri óháður löggjafarvaldinu. Dómarar áttu að vera í embætti í níu ár en löggjafarnir höfðu aðeins embætti í þrjú ár. Þar við bættist að helmingur frambjóðendanna í dómaraembætti áttu að koma úr hópi lögfræðinga en hinn helmingurinn veljast samkvæmt tillögum frá löggjöfum.

Árið 1994 leiddu fyrstu kosningar samkvæmt nýjum lögum til að valdir voru níu þingkjörnir dómarar. Þeir unnu embættiseið sinn einróma í hinni nýju löggjafarsamkomu. Þetta var athyglisverð byrjun.

Hæstiréttur hefur með aðstoð frá SÞ eftirlit með námsráðstefnum fyrir dómara og annað starfsfólk dómstóla. Jafnframt hafa nýútskrifaðir lögregluþjónar leyst hina eldri af hólmi. Fyrrverandi lögreglulið var leyst frá störfum en það tók lengri tíma en vonast hafði verið til, en eftirlitsmenn mannréttinda frá frjálsum samtökum (NGO) og SÞ héldu áfram að hvetja til alvarlegra aðgerða gegn lögregluþjónum sem misnotuðu stöðu sína.
Ofsafengnar fangauppreisnir sem kostuðu marga lífið og særðu marga hafa sannað þörfina fyrir endurskipulagningu og endurbætur. Það eru of margir fangar á of litlu svæði, gæði fangelsanna eru léleg, hreinlætisaðstaða slæm og maturinn er ekki ætur. Mannréttindamiðstöð SÞ hefur hins vegar hrundið í framkvæmd aðgerðum til að bæta aðstæðurnar. Sérstök áhersla er þó hér lögð á verndum mannréttinda barna og kvenna.

Rúanda
Í Rúanda, þar sem borgarastyrjöld hefur leitt til hræðilegra þjóðarmorða, hafa SÞ aðstoðað og ráðlagt réttarkerfinu á ýmsan hátt.

Morð á dómurum í Rúanda – og flótti annarra úr landi – hefur lamað réttarkerfið. Ennfremur hefur gífurlegur fjöldi mála sem ekki hafa verið afgreidd hlaðist upp og þar með eru fangelsin einnig hættulega yfirfull. Einu sinni bárust skýrslur um að yfir 50.000 fangar væru í húsnæði sem ætlað var 12.500 manns.

Langur biðtími eftir dómsúrskurði leiðir til vonbrigða og reiði í fangelsunum og þar með einnig aukinnar hættu á átökum og uppreisn. Jafnframt eru hreinlætis- og öryggisaðstæður slæmar, og yfir 200 fangar deyja að því er talið er í hverjum mánuði.

Í náinni samvinnu við yfirvöld í Rúanda hafa SÞ veitt kennslu og ráðgjöf alls staðar í landinu um hvernig framkvæma ber handtökur og varðhald. Jafnframt hafa sérfræðingar unnið með dómsmálaráðuneytinu um samningu nýrra laga, fangelsisendurbætur og eftirlit, auk lögreglurannsókna.

Kennsla og þjálfun lögregluliðsins og fangavarðanna hefur verið mikilvægur liður í átaki til að efla virðingu fyrir mannréttindum í Rúanda frá því árið 1995.
Burundi – en þangað hafa þúsundir borgara frá Rúanda flúið – hefur verið gistiland fyrir námsráðstefnur fyrir dómara, lögfræðinga, starfsfólk fangelsa og stjórnendur í opinberum stöðum.

Með aðstoð frá SÞ er lagadeildin í Bujumbura, Burundi, orðin miðstöð fyrir menntun starfsfólks í réttarkerfinu og fyrir framhaldsmenntun dómara sem eru í embætti.

* * *

Efling réttarkerfa landanna er afgerandi fyrir frið sem byggður er á virðingu fyrir mannréttindum.
Eins og það hefur sýnt sig í Kambódíu, Haítí, El Salvador og Rúanda er einn þáttur í hinni nauðsynlegu aðstoð, sambland af nýjum lagareglum, menntun, ráðgjöf og fjármögnun. Það eru þau störf sem þarf að vinna til að uppfylla aðalreglu í formála heimsyfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi. Inngangsorðin hljóða svo: Það ber að viðurkenna, að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum".