Fjarri fyrirsögnunum: Óhamingju Kongó verður allt að vopni

0
24
Komanda í IIturi- héraði
Komanda í IIturi- héraði. Mynd: OCHA/Wassy Kambale

Fjarri fyrirsögnunum. Lýðveldið Kongó.

Góður árangur karlalandsliðs Lýðveldisins Kongó á nýliðnum Afríkuleikum var sérstakt gleðiefni fyrir landsmenn, sem hafa ekki haft mörg tækifæri til að gleðjast í sameiningu um langa hríð. Í austurhluta landsins ríkir sannkölluð vargöld sem litla athygi vekur.

Fótboltamót í Bulengo -búðunum fyrir uppflosnað fólk í norður Kivu með stuðningi WFP
Fótboltamót í Bulengo -búðunum fyrir uppflosnað fólk í norður Kivu með stuðningi WFP. Mynd: WFP/Michael Castofas

Á meðan þjóðsöngur landsins var leikinn fyrir undanúrslitaleik gegn Fílabeinsströndinni minntu landsliðsmennirnir á ófremdarástandið með því að halda með annari hönd fyrir munninn og beina tveimur fingrum hinnar handar að gagnauganu.

Norska flóttamannaráðið hefur tvívegis lýst ástandið í Lýðveldinu Kongó sem vanræktustu flóttamannakreppu heimsins.

Skilti þar sem stendur Heimsvandamál : Fjarri fyrirsögnum  Um hvað snýst málið?

 Hjálparstarfsmenn hafa lýst yfir miklum áhyggjum af vaxandi mannúðarvanda í Kongó, sérstaklega í norður Kivu í austurhluta landsins.

130 þúsund manns hafa flosnað upp það sem af er þessu ári vegna átaka stjórnahersins og svokallaðra M23 vígasveita.

Þar að auki glímir landið við verstu flóð í marga áratugi.

Bakgrunnur átakanna 

Tvö ríki kenna sig við Kongófljótið í Afríku. Minna ríkið er einfaldlega nefnt Kongó og hið stærra Lýðveldið Kongó (oft skammstafað DRC). Hið síðarnefnda er næst stærsta land Afríku og ellefta stærsta land heims. Alls nær landið yfir 2.34 milljón ferkílómetra eða alíka og Grænland og Ísland samanlagt. Íbúafjöldinn er talinn vera um 110 milljónir.

Konur á leið á markað til að selja ávexti í Popokabaka í Bandundu-héraði.
Konur á leið á markað til að selja ávexti í Popokabaka í Bandundu-héraði. Mynd: OCHA Gemma Cortes

Mikinn auð er að finna í fylgsnum jarðar í austurhluta landsins. Það er engin tilviljun að það er einmitt þar sem ekki færri en 122 uppreisnarherir berjast gegn miðstjórnarvaldinu. Erlendir herir hafa einnig tekið þátt í átökum frá því þau brutust fyrst út fyrir um þremur áratugum. Sú var raunin 1996 en talið er að átökin þá í Austur-Kongó hafi kostað nærri sex milljónir manna lífið.

Áhrif á fólk og umhverfið

 Hvergi í heiminum hafa eins margir lent á vergangi innan landamæra eigin ríkis eða 5.7 milljónir manna.

Hvergi er heldur jafn marga að finna sem búa við fæðuóöryggi. Fjórði hver landsmaður eða 26.4 milljónir getur ekki fullnægt grundvallarfæðuþörf sinni. 6.4 milljónir glíma við alvarlega vannæringu. Sú tala hefur ekki breyst í tvo áratugi.

Skólabörn snúa aftur í skóla sem hafði verið lokaður vegna átaka í suður Kivu,
Skólabörn snúa aftur í skóla sem hafði verið lokaður vegna átaka í suður Kivu, Mynd: OCHA/Naomi Frerotte

Fjórða hver kona deyr í barnsfæðingu eða af völdum veikinda á meðgöngu.

Einna hæst hlutfall ungbarnadauða í heiminum er í Kongó.

Á síðasta ár eyðilögðust hundrað þúsund heimili, 1325 skólar og 267 heilsugæslustöðvar í flóðum. Vatn flæddi yfir ræktað land og nærri tvær milljónir manna, þar af 60% börn, þurfa á aðstoð að halda.

 Hamfarirnar riðu yfir landið á sama tíma og þar geisaði mesti kólerufaraldur um langt skeið. Kólera er aðeins einn af mörgum alvarlegum smitsjúkdómafaröldrum í landinu sem hægt væri að koma í veg fyrir. Lélegir innviðir, takmarkaður aðgangur að helsugæslu og lágt hlutfall bólusettra eru olía á eld vandans.

Þar að auki hýsir lýðveldi rúmlega hálfa milljón flóttamanna frá nágrannaríkjum.

Uppflosnað fólk í búðum
Uppflosnað fólk í búðum Mynd: WFP/Michael Castofas

Viðbrögð Sameinuðu þjóðanna

Friðargæslusveit og 22 stofnanir og áætlanir Sameinuðu þjóðanna eru við störf í landinu. Markmiðið er að reyna að koma á stöðugleika og efla þróun, auk þess að koma mannúðaraðstoð til bágstadds fólks.

Friðargæslusveitin MONUSCO hefur verið þar síðan 1999. 18 þúsund manns skipa sveitina, hina fjölmennustu undir merkjum Sameinuðu þjóðanna.

OCHA, Samræmingarskrifstofa mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna, telur að rúmar 25 milljónir manna þurfi aðstoð.

Þyrla kemur færandi hendi með mannnúðaraðstoð
Þyrla kemur færandi hendi með mannnúðaraðstoð. Mynd: OCHA/Naomi Freotti

Á síðasta ári var þess freistað að koma 8.7 milljónum til hjálpar. Talið er að það þurfi 2.6 milljarða dala til að fjármagna mannúðaraðstoð í ár, 2024.

Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna hafði aðstoðað 5.2 milljónir í nóvember 2023. Fólki eru afhent matvæli, fé til matarkaupa, svo eitthvað sé nefnt.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hefur látið til sín taka þar sem flóð og kólera herjar á Kongóbúa. Drykkjarvatni, vatnshreinsunarbúnaði og hjúkrunarvörum hefur verið komið til bágstaddra.

Friðargæslusveit hefur verið í landinu frá 1999.
Friðargæslusveit hefur verið í landinu frá 1999. Mynd: MONUSCO

Hvað getur þú gert?

Styrkt Matvælaáætlunina (WFP) í Lýðveldinu Kongó, hér.

Styrkt UNICEF í Lýðveldinu Kongó,  hér.

Nánari upplýsingar:

Sjá síðustu ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um MONUSCO, hér.

Sjá yfirlit yfir samþykktir  SÞ og fleira um Lýðveldið Kongó, hér.

Sjá nánar um mannúðarstarf hér.