Rio+20 ráðstefnan hafin

0
559

Rio hafin

20. júní 2012. Meir en hundrað oddvitar ríkja og ríkisstjórna sóttu opnunarhátíð Ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, Rio+20 í Rio de Janeiro. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra leiðir íslensku sendinefndina.

Markmið ráðstefnunnar er að leita leiða til stefnumótunar í því skyni að efla velmegun í heiminum, minnka fátækt, efla félagslegt réttlæti og vernda umhverfið.

 “Sögulegt samkomulag er í sjónmáli,” sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í opnunar-ávarpi sínu á Rio+20. “Við skulum ekki glutra niður þessu tækifæri. Allur heimurinn fylgist með því hvort orð okkar eru orðin tóm eða ávísun á aðgerðir.”
Samkomulag náðist um lokayfirlýsingu eftir langar og strangar samningaviðræður. Þessi drög verða nú lögð fyrir oddvita ríkjanna til samþykktar við lok Rio+20 á föstudag.
Rúmlega fjörutíu þúsund manns sækja Rio+20 auk leiðtoganna. Þar á meðal eru þingmenn, borgarstjórar, forstjórar og oddvitar almannasamtaka. Rio+20 er arftaki Jarðar-ráðstefnunnar svokölluðu fyrir tuttugu árum, árið 1992 þar sem hornsteinn var lagður að umræðu um sjáflbærni, loftslagsmál og fjölbreytni lífríkis. Þar var samþykktur vegvísir um hagvöxt, eflingu félagslegs réttlætis og umhverfisvernd.
 “Okkur hefur verið gefið annað tækifæri,” sagði Ban og bætti við að framþróun hefði verið of hæg frá Rio fundinum fyrir tuttugu árum. “Rio+20 er ekki lokapunktur heldur nýtt upphaf.  
Í lokayfirlýsingu Rio+20 sem nefnist “Framtíðin sem við viljum” er hvattt til margs konar aðgerða.
Þeirra á meðal eru að ýta úr vör ferli sem miðar að því að koma á fót Sjálfbærum þróunarmarkmiðum; að skilgreina hvernig grænt hagkerfi getur verið lykill að sjálfbærri þróun, að efla Umhverfisáætlun SÞ (UNEP), svo eitthvað sé nefnt.

Mynd:  Sha Zukang, framkvæmdastjóri Rio+20,  Ban Ki-moon, Dilma Rousseff, forseti Brasilíu og Muhammad Shaaban, aðst. frkvstj. SÞ. SÞ/mynd: Mark Garten.