Rottur bjarga mannslífum

0
462

apopo

4. apríl 2013. Löngu eftir að sverðin hafa verið slíðruð í styrjaldarátökum ógna sum vopn enn lífi óbreyttra borgara.

Jarðsprengjur eru virkar neðanjarðar árum, jafnvel áratugum saman og valda örkumlun og dauða. Börn, óbreyttir borgarar, ekki síst bændur, stíga á jarðsprengjur með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

 

En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Baráttunni gegn jarðsprengjum hefur borist óvæntur liðsauki: rottur.

Belgísku almannasamtökin APOPO með stofnandann Bart Weetjens í broddi fylkingar, uppgötvuðu að einstakt þefskyn rotta kæmi að notum við að þefa uppi jarðsprengjur. Reynst hefur tiltölulega auðvelt að þjálfa tiltekna rottutegund sem þrífst í Afríku sunnan Sahara. Þær eru það léttar að þær valda ekki sprengingu. Rotturnar eru þjálfaðar til að krafsa í jörðina þegar þær hafa fundið sprengju og fá umbun í hvert skipti. Fyrstu rotturnar voru þjálfaðar 2004 og tveimur arum síðar voru þær notaðar til að finna jarðsprengjur með góðum árangri í Mósambík.

Rotta leitar á 200 fermetra svæði á klukkutíma en það tæki menn tvo daga að vinna sama verk. Rottur hafa nú leitað að jarðsprengjum á samtals 6 milljón fermetrum og fundið 2500 jarðsprengjur sem hafa verið grafnar upp og gerðar óvirkar. Verið er að þjálfa rottur í Tansaníu en þær hafa verið að störfum í Angóla, Kambodíu og Tælandi.

Í dag er alþjóðadagur vitundar um jarðsprengjur og baráttuna gegn þeim

Jarðsprengjur eru mjög víða. Í október 2012 kváðust 59 ríki og sex önnur landsvæði glíma við hættuna af jarðsprengjum. Enn bætast við ný áhættusvæði, og nægir að nefna Sýrland og Malí.

Í ávarpi í tilefni dagsins segist Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna þó ánægður með að 161 ríki hafi lýst yfir að þau virði sáttmála um bann við jarðsprengjum frá 1997. Meir en fjörutíu og ein milljón jarðsprengja hafa verið gerðar skaðlausar í kjölfarið og framleiðsla og sala verið stöðvuð að mestu.

En þrátt fyrir þessa viðleitni telja Sameinuðu þjóðirnar að enn séu vel rúmlega 10 milljónir jarðsprengja grafnar í jörðu. Á hverjum degi deyr fólk eða missir útlimi eftir að hafa stigið á jarðsprengju. Oftast gerist þetta í ríkjum þar sem friður hefur komist á og langstærstur hluti fórnarlamba er úr röðum óbreyttra borgara.

Auk hættunnar sem fólki og búfénaði stafar af þessum vágesti, lendir gjöfult land í órækt með alvarlegum afleiðingum fyrir félagslega- og efnahagslega þróun.

Mynd: Flickr: Rattyfield / 2.0 Generic (CC BY-NC-SA 2.0