Filippseyingur fastar þar til árangur næst

0
461

Yeb Sano

11. nóvember 2013. Fellibylurinn Haiyan lagði heimabæ aðalsamningamanns Filippseyja í loftslagsmálum í rúst og hann ætlar að fasta þar til árangur næst á Loftslagsráðstefnu SÞ sem hófst í gær í Varsjá. 

“Það sem heimaland mitt hefur mátt þola er afleiðing öfgaveðurfars af völdum loftslagsbreytinga. Loftslagsvandinn er geggjun. Við getum stöðvað þessa geðveiki. Hér og nú í Varsjá,“ sagði samningamaðurinn Yeb Sano.
Sano sagði í ræðu sinni við opnun Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að til að leggja áherslu á þetta myndi hann fasta þar til árangur væri í sjónmáli á ráðstefnunni. „Þetta geri ég til að sýna samstöðu með löndum mínum sem eiga í erfiðleikum með að finna mat.“ 

Í ræðunni á 19.ráðstefnu aðila Loftslagssamnings SÞ í Varsjá beindi hann máli sínu til efasemdamanna. „Ég skora á þá sem enn neita staðreyndum um loftslagsbreytingar að koma niður úr fílabeinsturninum og standa upp úr þægilega hægindastólnum.“

„Vísindin kenna okkur að loftslagsbreytingar munu hafa í för með sér öflugri hitabeltisstorma. Hlýnun jarðar tekur einnig til hafsins. Orkan sem geymd er í hafinu í kringum Filippseyjar muna efla fellibyli og sífellt skaðvænlegri stormar munu verða regla – ekki undantekning.“

Sano hvatti til tafarlausra aðgerða: “Við hljótum að spyrja: “Ef ekki við, hverjir þá? Ef ekki nú, þá hvenær? Ef ekki hér í Varsjá, þá hvar?””
Ríkissstjórnir voru hvattar til þess við setningu ráðstefnunnar að finna ýmsum straumum í loftslagsmálum, innan ríkja, á vegum fyrirtækja og samfélagsins í heild, farveg og stíga skref í átt til nýs loftslagssáttmála fyrir 2015.
Í setningarræðu sinni sagði Christiana Figueres, framkvæmdastjóri Rammasáttmála SÞ um loftslagsmál (UNFCCC) að vísindin hefðu löngum spáð aukinni tíðni ofsaveðra á borð við fellibhylin á Filippseyjum. Hún hvatti þátttakendur til að nota “Varsjár-tækifærið” í þágu núlifandi og komandi kynslóða.

„Það er bæði pólitískur stuðningur og almennur vilji fyrir aðgerðum. Nýtt loftslagssamkomulag er innan seilingar. Vísindalegar niðurstöður Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna eru ótvíræðar. Aðilar sáttmálans geta verið í fararbroddi breytinga og sameiginlega rutt brautina fyrir árangri 2015,” sagði Figueres.

 

 Mynd: Flickr / Adopt a negotiator. Attribution-NonCommercial 2.0 Generic (CC BY-NC 2.0