Samningar gegn ríkisfangsleysi ekki fullgiltir

0
549

IBELONG UNHCR

6. nóvember 2014. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst yfir stríði á hendur ríkisfangsleysi með herferðinni „Ég tilheyri“ sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna  stendur fyrir.

heimsljósHeimsljós, vefrit Þróunarsamvinnustofnunar beinir kastljósinu að þessu máli: „Andvaka af hamingju var fyrirsögn í Morgunblaðinu fyrr á árinu þar sem rætt var við georgíska konu sem eftir mikla baráttu fékk langþráð dval­ar­leyfi hér á landi á grund­velli mannúðarsjón­ar­miða. Lika Kor­in­teli var þá ein af tíu til tólf milljón einstaklingum í heiminum sem var í þeirri sérkennilegu og erfiðu stöðu að vera ríkisfangslaus. Barátta hennar fyrir ríkisfangi hafði staðið yfir í tíu ár en fólk sem nýtur ekki þeirra mannréttinda að hafa ríkisfang hefur af ýmsum ástæðum verið synjað um slíkt af yfirvöldum í því landi sem það sjálft lítur á sem sitt föðurland. Lika Korinteli sagði sögu sína í Morgunblaðinu.

UNHCR Report 1 2Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hóf í gær alþjóðlega herferð í þágu þeirra sem eru án ríkisfangs og kallar herferðina „I Belong“ (Ég tilheyri). Markmiðið er að útrýma innan áratugar þeim útbreidda vanda og tryggja öllum ríkisfang. Vegna skorts á slíkri viðurkenningu eru um tíu milljónir einstaklinga í lagalegu tómarúmi og samkvæmt upplýsingum UNHCR fæðist barn á tíu mínútna fresti í heiminum án ríkisfangs. Ástæðan fyrir því að raunhæft er talið að ná fyrrnefndu markmiði á tíu árum er sú að sífellt fleiri þjóðir fullgilda tvo samninga Sameinuðu þjóðanna um skort á ríkisfangi, annars vegar samning frá 1954 um stöðu ríkisfangslausra og samningi frá 1961 um aðgerðir til að draga úr ríkisfangsleysi. Íslensk stjórnvöld hafa ekki fullgilt samningana.

Á íslenskri heimasíðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna segir að þjóðerni tákni hin lagalegu tengsl milli ríkis og einstaklings. Einstaklingur án ríkisfangs sé ekki talinn vera þegn eða ríkisborgari í neinu ríki. „Margar ástæður geta legið að baki ríkisfangsleysi. Til dæmis getur minnihlutahópum verið mismunað í löggjöf ríkja, misbrestur getur verið á því að skrá alla íbúa sem ríkisborgara þegar ríki öðlast sjálfstæði og ósamræmi getur verið í löggjöfum milli ríkja,“ segir á vefnum. Þar segir ennfremur að ríkisfangsleysi hafi hræðileg áhrif á líf fólks. Að hafa ríkisfang sé grundvöllur fyrir þátttöku einstaklinga í samfélaginu og sé forsenda þess að þeir fái notið fullra mannréttinda.

Guterres

Jolie

António Guterres yfirmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Angelina Jolie góðgerðarsendiherra UNHCR, auk tuttugu annarra heimskunnra einstaklinga, birtu í gær opið bréf þar sem segir að þeim þyki tímabært – sextíu árum eftir fyrsta sáttmálann til verndar fólki án ríkisfangs – að setja punkt aftan við þetta tímabil óréttlætis. Í bréfinu segir að ríkisfangsleysi sé ómannúðlegt. Það geti þýtt líf án menntunar, án heilsugæslu og atvinnu, líf án þess að vera frjáls ferða sinna, án vonar.“ (Úr Heimsljósi 7. árg. 248.tbl.) Myndir frá UNHCR. Mynd af Angelina Jolie SÞ-mynd/Rick Bajornas