Sandy: ástandið á Haítí alvarlegt

0
509

haitistorm

2. nóvember 2012.  Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna á Haítí hafa þungar áhyggjur af matvælaástandinu þar í kjölfar fellibyljarins Sandy en hýbýli 15-20 þúsunda manna gjöreyðilögðust þegar hann reið yfir; ýmist af völdum veðurhamsins eða flóða.

Íbúarnir höfðu varla náð sér eftir annan skæðan fellibyl, Isaac, sem herjaði á eyríkið í ágúst en að auki hafa langvarandi þurrkar allt þetta ár sett strik í reikninginn.

John Peleman sem stýrir skrifstofu samræmingar  mannúðaraðgerða (OCHA) á Haítí segir öll kurl ekki komin til grafar en fæðuöryggi sé í hættu.

“Við óttumst að eftir þennan hitabeltisstorm, kunni uppskeran sem var í gangi í suðurhluta landsins, að hafa farið forgörðum. Þegar við bætist að fæðuástandið hafði versnað til munar vegna þurrka og fyrri stormsins sem lék norðurhlutann grátt – er ekki von á góðu,” sagði Peleman í viðtali við útvarp SÞ.  “Nú þegar suðurhlutinn er illa farinn er ljóst að vannæring og fæðuóöryggi verður alvarlegt vandamál næstu mánuði.”

Haítí er fátækasta ríki á Vesturhveli jarðar og 1.2 milljónir manna búa við fæðuóöryggi eða eru með öðrum orðum á barmi hungurs ef þeim berst ekki aðstoð. Mannskæður jarðskjálfti reið yfir í janúar 2010. Enn búa 350 þúsund manns í búðum eftir skjálftann og þeir hafa margir hverjir orðið illa úti af völdum Sandy.

Mynd: Sandy reið yfir Haíti 25. október. MINUSTAH/L. Abassi