Mannréttindabrot Kínverja í Tíbet gagnrýnd

0
566

Pillay
2. nóvember 2012. Navi Pillay, Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti í dag kínversk stjórnvöld til að taka á langvarandi umkvörtunarefnum Tíbeta sem leitt hafa til stigvaxandi örvæntingarfullra mótmæla, svo sem sjálfsíkveikju á svæðum sem Tíbetar byggja.

Mannréttindastjórinn sagðist í yfirlýsingu hafa þungar áhyggjur af “stöðugum ásökunum um ofbeldi gegn Tíbetum sem reyna að nýta sér grundvallarmannréttindi sín á borð við tjáningar- félaga- og trúfrelsi. Pillay vísaði til frétta um “handtökur og mannshvörf og óhóflega valdbeitingu gegn mótmælendum og takmarkanir á menningarlegum réttindum Tíbeta.”
 
Sem dæmi eru fréttir af sautján ára gamalli stúlku sem sögð er hafa verið beitt harkalegum barsmíðum áður en hún var dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir að dreifa flugriti þar sem krafist var frelsis til handa Tíbet og endurkomu Dalai Lama. Aðrir hafa verið dæmdir í frá fjögurra til sjö ára fangelsi fyrir að skrifa ritgerðir, gera myndir eða dreifa ljósmyndum af atburðum í Tíbet utan landamæra Kína. Alvarlegar efasemdir hafa verið uppi um réttláta meðferð mála fyrir dómi og pyntingar og slæma meðferð fanga. 

“Ég hef átt í orðaskiptum við kínversku stjórnina vegna þessara mála. En aðgerða er þörf til að vernda mannréttindi og koma í veg fyrir slík brot,” sagði Pillay. “Ég hvet ríkisstjórnina til að viðurkenna réttindi til friðsamlegs fundahalds og frjálsrar tjáningar hvet til þess að einstaklingar sem fangelsaðir hafa verið fyrir að reyna að nýta sér þessi réttindi, verði látnir lausir úr haldi.”

Mynd: Navi Pillay, sem nýverið hóf annað tímabil sitt sem Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna. SÞ/Jean-Marc Ferré