Sendimaður SÞ biður Darfur griða við lok heimsóknar.

0
485
Svíinn Jan Eliasson, nýskipaður sendimaður  Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna  fyrir Darfur lauk ferð sinni til Súdans með því að kynna sér aðstæður í hinu stríðshrjáða Darfur héraði frá fyrstu hendi. Hvatti hann deilendur til að binda enda á ofbeldisverk í því skyni að greiða leið fyrir pólitískri lausn deilna

Jan Eliasson hitti fulltrúa Súdans-stjórnar föstudaginn 12. janúar í El Fasher, höfuðstað Norður-Darfur auk fulltrúa tveggja hópa uppreisnarmanna sem ekki undirrituðu Darfur-friðarsamninginn  í maí, Réttlætis- og jafnréttishreyfingarinnar (JEM) og eins arms Frelsishers Súdans  (SLM/A).

Þetta var síðasti viðkomustaður í vikulangri ferð en hann hitti að máli Omar el-Bashir, forseta Súdans og fleiri stjórnarliða og fyrrverandi uppreisnarmenn, þar á meðal Minni Minawi (SLMA/A) í Khartoum og fulltrúa Afríkusambandsins í Addis Ababa í Eþíópíu. 

Eliasson sagðist leggja áherslu á í viðræðum við þá aðila sem ekki undirrituðu samninginn, að nauðyn krefði að stemma stigu við ofbeldi til að skapa jarðveg fyrir varanlegri pólitískri lausn í Darfur. 200 þusund manns hafa látist þar og 2 milljónir flúið heimili sín. 

Bardagar brutust út 2003 á milli stjórnarhersins og vígasveita annars vegar og uppreisnarmanna sem kröfðust aukinnar sjálfstjórnar hins vegar. Fjórar milljónir manna eru nú háðar utanaðkomandi aðstoð. Embættismenn SÞ hafa ítrekað sagt að mannúðarástandið í Darfur sé það versta í heiminum í dag. Ban Ki-moon sagði fyrr í þessum mánuði að lausn deilunnar yrði eitt helsta forgangsatriði hans í starfi. 

Jan Eliasson er fyrrverandi forseti Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og fyrrverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar. Eliasson var skipaður í starf sitt í síðasta mánuði í því skyni að hleypa nýju lífi í diplómatískar tilraunir til að leysa deiluna á friðsamlegan hátt á grundvelli Darfur-friðarsamkomulagsins sem var undirritað af ríkisstjórninni og sumum uppreisnarhópanna. 

Viðræður sendimannsins hafa meðal annars byggst á þriggja þrepa áætlun sem miða að því að vísir að sameiginlegu friðargæsluliði SÞ og Afríkusambandsins leysi af hólmi núverandi undirmannaða sveit Afríkusambandsins sem gengur undir nafninu AMIS. Nýja sveitin yrði skipuð 17 þúsund hermönnum og þrjú þúsund lögreglumönnum.