Sjálfbær heimur á tímum risa-borga

0
498

Norðurlandabúar voru á meðal rúmlega 35 þúsund þátttakenda í svokallaðri Habitat III ráðstefnu um húsnæði og sjálfbæra þróun borga sem var haldin í lok október í Quito, höfuðborg Ekvador.

Ráðstefnan samþykkti alheims-aðgerðaáætlun, svokallaða Nýja borgaráætlun, sem er eins konar viðbót við Áætlun 2030 um sjálfbæra þróun sem samþykkt var á síðasta árí af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna.

Ráðstefnan var einstakt tækifæri til að ræða mikilvægar áskoranir sem borgir, bæjir og þorp standa andspænis varðandi skipulag og stjórnun til þess að geta verið drifkraftur sjálfbærrar þróunar og Parísarsamkomulagsins um loftslagsbreytingar.

“Við höfum greint og rætt áskoranir sem borgir standa frammi fyrir og samþykkt sameiginlegan vegvísi fyrir næstu 20 ár, “ sagði Joan Clos, forstjóri Mannvistaráætlunar Sameinuðu þjóðanna, UN-Habitat í lokaræðu ráðstefnunnar. Hana sóttu fulltrúar frá 167 ríkjum.

Í sjálfbæru þróunarmarkmiðunum er hlutur borga og bæja í að framfylgja markmiðunum viðurkenndur. Búist er við að 70% íbúa heims búi í borgum um miðja öldina. Borgarstjórar og fulltrúar landshluta, borgaralegs samfélags, skipulagsyfirvalda voru á meðal þátttakenda.

En hvaða lærdóma má draga af ráðstefnunni fyrir Norðurlöndin?

Norðmaðurinn Erik Berg, forsprakki Habitat Norge segir að yfirlýsing fundarins endurspegli að mörgu leyti norrænan veruleika í dag. “Við höfum fyrir löngu síðan byrjað að fjalla um vistkerfi borga, efnahaginn og jöfnuð, það er ekkert nýtt í okkar augum. Hins vegar vantar sumar áskoranir okkar í yfirlýsinguna. Til dæmis um mannvist á heimskautasvæðum. Öfgakennt veðurfar, hækkandi yfirborð sjávar, sveiflur í hitastigi, landrof og fleira mun hafa mikil áhrif á mannvirki við mjög erfiðar aðstæður,” segir Berg.

Caroline Wrangsten, frá sænska félagi Sameinuðu þjóðanna var fulltrúi ungmenna í sænsku sendinefndinni. Hún starfaði áður fyrir hug veituna Global Utmaning. Hún segir að tæknilegar lausnir séu fyrirliggjandi. “Nú þurfum við réttan vettvang og forystu til að hrinda áætluninni í framkvæmd.” Hún segist hafa dregið einn lærdóm af umræðum á vettvangi unga fólksins: “Ef við byggjum borgir sem eru öruggar fyrir ungar konur og stúlkur, erum við um leið að byggja öruggar og sjálfbærar borgir fyrir alla.”  

Wrangsten er einnig einn höfunda skýrslunnar Nordic Urban Ways þar sem hvatt er til aukinnar norrænnar samvinnu borga. „Ég held að það sé hægt að hafa mikinn ávinning af nánari samvinnu milli borga í okkar heimshluta og að Norðurlönd þurfi ekki að leita langt yfir skammt og til annara heimsálfa. Það er margt sem við getum lært hvert af öðru.”