„Átakanleg þörf” á aðstoð við Austur-Kongó

0
550

gingcongo

6. nóvember 2012. Karlmenn eru brytjaðir niður, konum er nauðgað og börn þvinguð í hernað en engu að síður tekst ekki að afla nema rúmlega helmings þess fjár sem þörf er á til að bjarga mannslífum.  

John Ging, yfirmaður hjá Samræmingarskrifstofu mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna dró upp dökka mynd af ástandinu í austurhluta Lýðveldisins Kongó á blaðamannafundi í New York í gær. Ging er nýkominn frá Kongó þar sem hann dvaldi í viku í norður og suður Kivu til að leggja mat á ástandið. Hann segir að Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsfólk þeirra hafi beðið um 791 milljón dollara í aðstoð til að bjarga mannslífum á þessu ári en einungis hafi tekist að fá framlög að upphæð 429 milljónir. “Það er átakanleg þörf á meiri framlögum,” segir Ging.

Vígamenn vaða upp í Kivu héruðunum tveimur og almennir borgarar líða fyrir það: “Karlmenn eru vegnir, konum er nauðgað og börn numin á brott og þvinguð til að taka upp vopn. Farið er ránshendi um þorp og þau eyðilögð,” sagði Ging.

 “Mannúðarástandið er skelfilegt. 2.4 milljónir manna hafa flosnað upp frá heimilum sínum og eru á vergangi innan landamæra Kongó; þar af 1.6 milljón í Kivu.”
Harðnandi átök hafa verið í Kivu á milli uppreisnarmanna úr svokallaðri M23 hreyfingu annars vegar og stjórnarhermanna hins vegar sem njóta stuðnings friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna (MONUSCO). Fjöldi fólks hefur flúið til nágrannaríkjanna Rúanda og Úganda.

“Uppreisn M23 og voðaverk tuga annara sveita vígamanna í austurhluta Kongó er orsök skelfilegra hörmunga íbúanna en gróf brot gagnvart almenningu eru tíð, hvort heldur sem er morð, nauðganir eða grimmilegar hefndaraðgerðir,” segir Ging.

Núverandi neyðarástand er einungis viðbót við miklar hörmungar undanfarin ár í Kongó. 4.5 milljónir manna búa við svokallað fæðuóöryggi eða eru í reynd á barmi hungurs. Ein milljón barna þjást af brýnni vannæringu og 27 þúsund kólerutilfelli hafa komið upp á þessu ári.

“Það er brýnt að við aukum íhlutun okkar og verndum fólkið,” segir Ging. “Við þurfum að bregðast við af mannúðarástæðum.”

Mynd: John Ging heimsækir börn í búðum fyrir uppflosnað fólk í norðurhluta Kivu í Kongó, 23. október síðastliðinn. OCHA/Imane Cherif