SÞ heita aðstoð í kjölfar Sandy

0
478

haiti-sandy

1. nóvember 2012. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur vottað þeim milljónum manna samúð sem hafa orðið fyrir barðinu á fellibylnum Sandy í Bandaríkjunum og Karíbahafinu. Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York hafa að mestu verið lokaðar alla þessa viku vegna óveðursins.

Framkvæmdastjórinn hefur skrifað Obama, forseta Bandaríkjanna og forsetum Haítí og Dóminíkanska lýðveldisins samúðarbréf auk Bloomberg, borgarstjóra New York. Þá hefur hann boðið aðstoð samtakanna í endurreisnarstarfi. Hann mun á næstunni tala við aðra leiðtoga á Karíbahafsvæðinu og ríkisstjóra New York og New Jersey.

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York urðu fyrir talsverðum skemmdum af völdum stormsins og flóða. Þrátt fyrir talsverða röskun, tókst að halda uppi allri bráðnauðsynlegri þjónustu og starfi áfram, þar á meðal fundaði Öryggisráð samtakanna og samband hélst við friðargæslusveitir um allan heim. Höfuðstöðvarnar hafa nú verið opnaðar að nýju og er búist við að öll starfsemi komist í samt lag innan skamms.

Mynd: Logan Abassi/MINUSTAH