SÞ hvetja til að herkví verði aflétt á Gasa

0
444

Gasa

15. júní 2012. Gasasvæðið hefur nú verið í herkví á sjötta ár og af því tilefni hafa nokkrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna gengið í lið með hóp af alþjóðlegum hjálparsamtökum og hvatt til þess að herkví Ísraelsmanna verði aflétt.

 “Meir en ein milljón og sex hundruð þúsund manna á Gasasvæðinu hafa verið í herkví í rúm fimm ár í trássi við alþjóðalög. Meir en helmingur eru börn. Við undirrituð segjum með einni röddu, “afléttið herkvínni nú þegar,” segir í yfirlýsingu meir en 50 samtaka og stofnana.
Ísraelsmenn settu Gasa í herkví af því sem kallað er öryggisástæður eftir að Hamas-samtökin, sem viðurkenna ekki tilvistarrétt Ísraelsríkis, ráku Fatah-samtökin frá Gasasvæðinu árið 2007.
Samtök Sameinuðu þjóðanna sem aðild eiga að yfirlýsingunni eru Skrifstofa mannúðarmála á herteknum palestínskum svæðum, Skrifstofa Mannréttindafulltrúans (OHCHR), Barnahjálpin (UNICEF), Menningarstofnunin (UNESCO), Palestínuflóttamannahjálpin (UNRWA), Jafnréttisstofnunin (UN WOMEN) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO).
Af öðrum samtökum má nefna  Amnesty International, CARE International, Medicos del Mund, Spáni og  Save the Children.
Talsmaður Ban Ki-moon sagði aðspurður í gær að framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefði ítrekað hvatt til þess að herkvínni yrði aflétt í samræmi við ályktun Öryggisráðsins númer 1860.