SÞ minnist Helfararinnar

0
559
alt

Sameinuðu þjóðirnar minnast ár hvert 27. janúar Helfararinnar en þann dag frelsuðu bandamenn Ásvits útrýmingarbúðirnar árið 1945. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sendi frá sér ávarp í tilefni dagsins:alt

Á hverju ári sameinast alþjóðasamfélagið í því að minnast Helfararinnar og þeirra lærdóma sem við öll getum dregið af henni. Þetta er mikilvæg árleg minningarstund.

Á afmæli frelsunar Ásvits-Birkenau, stærstu og alræmdustu útrýmingarbúða nasista, minnumst við milljóna gyðinga auk stríðsfanga, pólitískra andófsmanna og minnihlutahópa á borð við Róma og Sinti, samkynhneigðra og fatlaðra sem voru kerfisbundið myrtir af Nasistum og áhangendum þeirra.

Í ár vottum við sérstaklega virðingu okkar konum sem þjáðust af völdum Helfararinnar. Líf mæðra og dætra, amma og frænkna breyttist að eilífu; fjölskyldur voru skildar að og hefðir þeirra þurrkuðust út. Þrátt fyrir mismunun,skort og grimmd fundu þær sífellt leðir til þess að standa upp í hárinu á ofsækjendum sínum.  

Þær gengu í andspyrnuhreyfinguna, björguðu fólki í lífshættu, smygluðu matvælum inn í gettóin og færðu ótrúlegar fórnir til að halda börnum sínum á lífi. Hugrekki þeirra er okkur enn innblástur. Við skulum heiðra þessar konur og arfleifð þeirra á þessum minningardegi um Helförina. Við skulum heita því að skapa heim þar sem slík grimmdarverk verða ekki endurtekin.

Okkur er öllum fullljóst að slík framtíð er ekki handan við hornið. Hvarvetna í heiminum verða konur og stúlkur að þola ofbeldi, misnotkun og mismunun. Sameinuðu þjóðirnar eru staðráðnar í því að efla og vernda grundvallar mannréttindi þeirra. Með því að valdefla konur, valdeflum við allt þjóðfélagið. 

Aldrei framar ættu fjölskyldur að standa augliti til auglitis við hið illa eins og í Helförinni. Einungis með því að taka höndum saman getum við hindrað þjóðarmorð og refsileysi. Við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar með því að mennta nýjar kynslóðir um þennan hræðilega kafla í sögu okkar og stuðlað að því að viðhalda mannlegri reisn allra.