SÞ og Metro saman gegn loftslagsvá

0
494

GreenCity new 2

13.ágúst 2014. Metro fríblöðin og Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið höndum saman í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Tíundu Ljósmyndasamkeppni Metro International verður hleypt af stokkunum í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í tilefni af leiðtogafundi samtakanna um loftslagsmál 23.september næstkomandi. 

Blöð Metro International eru lesin á hverjum degi af 18 milljónum manna í 24 löndum, en auk þeirra munu upplýsingaskrifstofur Sameinuðu þjóðanna um allan heim kynna keppnina sem nefnist Ljósmyndaáskorun Metro (Metro Photo Challenge). Samstarf Sameinuðu þjóðanna og Metro er einstakt tækifæri fyrir borgarbúa um allan heim til að svara áskorun um aðgerðir í þessu mikilvæga alheimsvandamáli og nota ljósmyndahæfileika sína í þágu jákvæðra breytinga á heimsvísu.

Keppnin er öllum opin hvar í heiminum sem þeir búa. Þemað sem tekur til loftslagsbreytinga er “Græna borgin mín”. Ítarlegri upplýsingar um þemu, keppnisflokka og verðlaun, verða gefnar þegar keppnin hefst formlega 23.september.

„Ég ætla að gera orð Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að mínum: „Loftslagsbreytingar eru ekki að gerast annars staðar, þær eru að gerast hér og nú, með alvarlegum afleiðingum,” segir Afsane Bassir-Pour, forstjóri UNRIC, Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Brussel, „en framkvæmdastjórinn bætir við „breytingar liggja í loftinu,” og ákvörðun Metro International um að taka upp þetta málefni er dæmi um slíkar breytingar,” segir Bassir-Pour.

„Aðalmarkmið okkar er alltaf að virkja lesendur okkar og örva þá með því að velja verðuga áskorun sem viðfangsefni,” segir Francisco Contreras, hjá Metro. „Við hjá Metro erum himinlifandi yfir því að vinna með Sameinuðu þjóðunum að þessu sinni. Við teljum að samvinnan muni glæði áhuga lesenda og ljósmyndara til að taka þátt í áskoruninni í ár.”

Ljósmyndaáskorun Metro

Ljósmyndaáskorun Metro var fyrst haldin í Svíþjóð fyrir tíu árum og um allan heim árið 2007. Keppninni hefur vaxið fiskur um hrygg og aflað sér virðingar og vinsælda á meðal jafnt atvinnu- sem áhugamanna í ljósmyndun. Árið 2013 sendu 40 þúsund ljósmyndarar 120 þúsund myndir í keppnina og þar með var Metro Photo Challenge orðin stærsta ljósmyndakeppni heims. 

Loftslags-leiðtogafundur 2014

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur boðað til fundar leiðtoga heimsins um Loftslagsmál til þess að virkja pólitíska forystumenn og efla aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Leiðtogafundinum er ætlað að vera opinber vettvangur fyrir ekki aðeins leiðtoga heldur einnig aðildarríkin, fjármálafyrirtæki, atvinnulífið, borgaralegt samfélag og leiðtoga á hverjum stað, til þess að leysa úr læðingi metnaðarfullar aðgerðir og draga úr blæstri lofttegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum og efla þanþol loftslagsins. Þá er ætlunin að fylkja liði í því skyni að efla pólitískan vilja til að ljúka metnaðarfullu lagalega bindandi samkomulagi fyrir 2015 með það að markmiði að jörðin hitni ekki um meir en 2 gráður á Selsíus.

Metro er stærsta alþjóðlega dagblað heims. Metro er gefið út í 150 stórum borgum í 24 ríjkum í Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku og nær til 18 milljóna lesenda á hverjum degi.