SÞ sendir lið til að kanna mannréttindi í Túnis

0
467
alt

Yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum mun senda teymi til Túnis í næstu viku til að meta stöðu mannréttinda í ljósi pólitísks óróa í landinu sem hefur kostað meir en hundrað manns lífið.

alt

“Ég hef velt þeirri spurningu fyrir mér hvað embætti mitt og alþjóðasamfélagið almennt getur gert til að þess að hjálpa Túnisbúum til að nýta sér þau tækifæri sem nú gefast,” sagði Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna Navi Pillay á blaðamannafundi í Genf í dag 19. janúar.

“Það er of snemmt til að sjá fyrir hvað úr verður en það er mikilvægt að réttum frækornum sé sáð á skynsamlegan hátt áður en rótgrónir hagsmunir ná að rétta úr kútnum eða nýjar áskoranir skjóta upp kollinum.”

Navi Pillay, æðsti embættismaður Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum. SÞ-mynd: Jean-Marc Ferre.

Forseti Túnis Zine El Abidine Ben Ali flýði land í síðustu viku í kjölfar sívaxandi mótmæla og ofbeldis í mótmælum þar sem andæft var hækkandi verði á nauðsynjavörum, skorti á atvinnumöguleikum, meintri spillingu og skerðingu á helstu mannréttindum og frelsi.

Aðgerðir til að koma á stöðugleika hafa ekki skilað árangri hingað til. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ítrekaði áhyggjur af vaxandi ofbeldi í Túnis á þriðjudag og hvatti til aðgerða til að koma á friði og stöðugleika að nýju.