Sykursýki: Ekki lengur saumnál í heysátu

0
525
diabetes

 

diabetes
14.nóvember 2013. Sú var tíð að sykursýki var sjaldséður sjúkdómur en nú er svo komið að hún er talin á meðal helstu heilsufars- og þróunarvandamála 21.aldarinnar.

Sykursýki herjar á 371 milljón manna í heiminum og 280 milljónir til viðbótar eru verulegri hættu að fá sjúkdóminn. Talið er að talan eigi eftir að hækka í 592 milljónir árið 2035.
Sykursýki af gerð 2 er nú talin heilsugæsluvandamál á heimsvísu og ógnar efnahag allra landa, sérstaklega þó þróunarríkja. Hröð borgarmyndun, fæðubreytingar og aukin kyrrseta eiga sinn þátt í aukinni tíðni þessarar tegundar sykursýki sem eykst í takt við aukna offitu á heimsvísu.

 

Einu sinni var þessi tegund sykursýki vestrænt fyrirbæri en nú breiðist hún út til allra ríkja heims. Að auki er hún ekki lengur “velmegunarsjúkdómur” heldur legst einnig af auknum þunga á hina fátæku. Það sem áður var sjúkdómur sem einungis fullorðnir glímdu við, er nú algengur hjá börnum eftir því sem offita á meðal barna eykst.
60% sykursýkistilfella eru í Asíu. Hins vegar helst offituhlutfall ekki fullkomlega í hendur við tíðni sykursýki. Hlutfall offitu á Indlandi er lágt en hins vegar er annarar tegundar sykursýki hlutfallslega mjög algeng.

Alþjóða sykursýkisdagurinn er haldinn hvert ár 14.nóvember til að virkja milljónir manna um allan heim til að auka þekkingu og vitund um þennan vágest.
Herferðin í ár: “Sykursýki: verndum framtíð okkar“, miðar að því að hvetja og virkja staðbundin samfélög og deila einföldum upplýsingum og skilaboðum um hvernig hamla megi útbreiðslu sykursýki.
Að miklu leyti má koma í veg fyrir útbreiðslu sykursýki og afleiðingar hennar og sýnt hefur verið fram á að ódýrar aðgerðir virka. Forvarnaraðgerðir á borð við að sannfæra fólk um gildi heilbrigðrar fæðu og lífsstíls ættu að vera forgangsatriði í heilsugæslu um allan heim.

Mynd: Flickr / room 202 / 2.0 Generic (CC BY-NC-SA 2.0)