Sýrland: Fólkið ætti að vera í fyrirrúmi

0
506

 

Amos1

12. september. Æðsti yfirmaður mannúðarmála hjá SÞ minnir á að þjáningar fólksins í Sýrlandi megi ekki gleymast meðan leitað sé pólítískra lausna og hótað er að beita hervaldi.

 Valérie Amos, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sviði mannúðaraðstoðar skrifar grein sem birst hefur í fjölmiðlum um allan heim, þar á meðal í Kjarnanunum í dag:

 

Hið alvarlega ástand í Sýrlandi og beiting efnavopna tröllríða fréttum þessa dagana og eru efst á baugi í pólitískum og diplómatískum viðræðum og í umræðuþáttum í sjónvarpi. Pólítíkin í Sýrlandi er hvarvetna til umræðu en minna fer fyrir því að athyglin beinist að fólkinu.

Ég er nýkomin frá Damaskus þar sem ástandið fer síversnandi. Sprengjugnýrinn er hávær og stöðugur. Stórskotahríð dynur á heilu úthverfunum og setið er um heilu borgirnar. Fólk og samfélög sem lifað hafa í sátt og samlyndi um langt skeið hafa snúist gegn hvert öðru.

Fólk er hrætt: líf þeirra er í hættu og bardagar, hrottaskapur og mannréttindabrot eru daglegt brauð. Það veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Ein móðir, Jameela, sagði mér að börnin hennar vöknuðu æpandi á nóttunni af ótta við að einhver ætlaði að gera þeim mein. Milljónir manna skortir mat, vatn og rafmagn. Margir eru orðnir úrræðalausir. Meir en tvær milljónir hafa flúið land.

Hrun efnahagslífsins hefur haft í för með sér að fólk getur ekki brauðfætt fjölskyldur sínar og stendur frammi fyrir því erfiða vali, hvort því beri að vera um kyrrt eða flýja. Íbúarnir verða að vega og meta annars vegar óttann við dauða, limlestingar og sjúkdóma, skort á læknum og heilsugæslu, himinhátt verðlag á nauðynjum og hins vegar óvissa framtíð sem heimilisleysingi eða flóttamaður. Kennsla barnanna, atvinnan, meðferð við krónískum sjúkdómum á borð við sykursýki eða nýrnasteina heyrir sögunni til. Þrátt fyrir góðan vilja hjálparstofnana þá hrekkur mannúðaraðstoð ekki til.

Eitt þúsund starfsmenn Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi og samstarfsmenn okkar, vinna með almannasamtökum og samtökum íbúa til að hjálpa þeim sem þurfa mest á því að halda en þeir vita að við gerum ekki nóg. Margir landshlutar eru utan seilingar, ýmist vegna þess að það er of hættulegt að ferðast þangað eða að bílalestir hlaðnar hjálpargögnum komast ekki framhjá vígjum ýmissa vopnaðra sveita. Við vitum að matvæli eru af hættulega skornum skammti sums staðar en getum ekki að gert. Enn starfa þrjú þúsund og fimm hundruð starfsmenn Sameinuðu þjóðanna með palestínskum flóttamönnum í búðum og í samfélögum sem orðið hafa fyrir barðinu á ofbeldinu.

Á meðan leitað er lausna skulum við minnast þess að á bakvið háar tölu eru manneskjur og það er fólkið sjálft sem skiptir máli. Myndirnar sem okkur eru sýndar kunna að vera svo skelfilegar að við lítum undan, en þetta er daglegur raunveruleiki Sýrlendinga. Það sem ég sá og heyrði í Sýrlandi færði mér heim sanninn um þann toll sem átökin taka af venjulegu fólki. Öryggisráðið er klofið í afstöðu sinni um pólitíska lausn, en á meðan verðum við að efla mannúðaraðstoð okkar.

Ég hvet enn á ný meðlimi Öryggisráðsins að starfa saman til að tryggja í nafni mannúðar aðgang að fólki á þeim sem svæðum sem verst hafa orðið úti og vernda almenna borgara, heilsugæslu og mannúðarstarfsmenn. Ég bið öll ríki um að seilast enn dýpra í vasana til þess að afla sjóða til að við getum haldið starfi okkar áfram.

Margir Sýrlendingar, sérstaklega konur, sögðu mér að alþjóðasamfélagið hefði snúið við þeim bakinu. Ég er staðráðin í því að sýna fram á að þeir hafi rangt fyrir sér. Sýnum Sýrlendingum að þeir séu ekki einir, að við höfum ekki yfirgefið þá; að heiminum standi ekki á sama.

Mynd: Valérie Amos kannar aðbúnað sýrlenskra flóttamanna í Za’atri flóttamannabúðunum, nærri Mafraq í Jórdaníu.