Sýrland: Hálf milljón matarlaus

0
434

syria press release

12.mars 2014. Sameinuðu þjóðunum hefur tekist að koma matvælum til héraða í Sýrlandi sem hafa verið óaðgengileg mánuðum saman.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) hefur náð að brjótast með vistir til 20 þúsund manna í Al-Houle skammt frá Homs í fyrsta skipti síðan í maí 2013. Bílalest með vistir handa jafnmörgum náði síðan fram til Ar- Raqqa héraðs í fyrsta skipti í hálft ár. Tekist hefur að koma á staðbundnum vopnahléum á milli stríðandi fylkinga í kringum Damaskus og Dara´a í því skyni að greiða fyrir matvælaflutningum. Fimm vörubílar frá WFP komu 17.500 manns til hjálpar í búðum fyrir uppflosnað fólk innanlands í Sýrlandi fyrir norðan Idlib. Sumir höfðu enga hjálp fengið frá WFP frá upphafi átakanna 2011.

En á sama tímar versnar öryggisástandið annars staðar eins og í Deir-Ezzor héraði í norðausturhluta Sýrlands. Þangað tókst að koma mannúðaraðstoð í febrúar en það sem af er mars hefur ekki tekist að koma neinum vistum þangað til 27 þúsund bágstaddra. ”Við komum einni og einni bílalest í gegn en WFP þarf að komast áleiðis með reglubundnu millibili og hafa órofinn aðgang að nauðstöddum til að koma neyðaraðstoð til skila og raunar til þess að grafast fyrir um hvernig ástandið er,” segir Amir Abdullah, hjá WFP í Genf.

WFP aðstoðaði 3.7 milljónir manna í Sýrlandi í febrúar og 1.5 milljón flóttamanna frá landinu í nágrannaríkjunum. WFP telur að 4.25 milljónir þurfi mannúðaraðstoð í Sýrlandi en hálf milljón fær enga mataraðstoð vegna ófremdarástandsins.