Þar sem sólin vermir og sjórinn kælir

0
477

1. UN City

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og Hennar Hátign Margrét Önnur Danadrottning vígðu nýjar „grænar og vænar“ höfuðstöðvar samtakanna í Kaupmannahöfn 4. júlí. Þær munu hýsa 1.200 starfsmenn og átta stofnanir samtakanna sem starfa í Danmörku.

Nýja byggingin vann til verðlauna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins árið 2012 sem umhverfisvænsta nýbygging álfunnar það árið. Ban Ki-moon, sagði í vígsluræðu sinni að byggingin væri ekki aðeins fögur heldur einnig „skínandi góð fyrirmynd“ fyrir „skilvirkari, samhentari og kolefnasnauðari“ Sameinaðar þjóðir.

Að sögn danska utanríkisráðuneytisins var það markmiðið að „efla skilvirkni og hlúa að samvinnu“ milli stofnana SÞ.
Prúðbúinn maður seig niður hæðirnar fimm á reipi til að afhenda fyrirfólkinu skæri svo klippa mætti á borða og opna formlega höfuðstöðvarnar.

Einna mesta athygli vekur sótsvartur stigi sem strax á byggingarstigi var kallaður „Harry Potter stiginn“. Christian Friis Bach, þróunarsamvinnuráðherra Dana lagði útfrá þessu gríni í ræðu sinni og sagði að Sameinuðu þjóðirnar þyrftu „ef ekki á göldrum að halda, þá að minnsta kosti ímynduarafli“ að hætti Harry Potter.

Við vígsluna sagði framkvæmdastjórinn: „Hér fyrir framan er sægur af reiðhjólum og undan ströndinni er vindurinn beislaður; hvarvetna má sjá lausnir sem boðið er upp á til að takast á við loftslagsbreytingar. Sólin hitar bygginguna og sjórinn kælir og hlerum er beitt til að stýra ljósi og hita.“

Lorena Pontes Masri (28) sagði í ræðu fyrir hönd starfsmannanna: „Ég elska að koma hingað á morgnana. Ég er svo stolt af því að vinna fyrir Sameinuðu þjóðirnar og stolt af okkar nýja heimili. Byggingin hvetur okkur en er líka áskorun um að vinna á annan hátt og fitja upp á nýjungum til að Sameinuðu þjóðirnar verði í raun ein samtök.“

Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Dana notaði tækifærið og hét því að Danmörk stæði fast við að veita 0.83% þjóðartekna til opinberrar þróunarsamvinnu á næsta ári.

Um þúsund manns sóttu vígsluathöfnina.