Þar sem moskítóflugurnar eru eini félagsskapurinn

0
507
Pall Asgeir

Pall Asgeir

24.október 2015. Norðurlandabúi mánaðarins að þessu sinni er Páll Ásgeir Davíðsson, íslenskur lögfræðingur. Hann starfar sem sérfræðingur í uppbyggingu réttarríkis hjá Sameinuðu þjóðunum í Súdan.

Þessa stundina vinnur hann við að samræma átak S.þ. (eða stofnunarinnar) til að ná fram friði og öryggi í Darfur-héraði í Súdan með því að efla löggæslu og dómsvald Starfið felst m.a. í því að fá allar stofnanir S.þ. til að vinna saman í að þróa áætlun um uppbyggingu réttarríkisins fyrir þetta stríðshrjáða hérað.

Hvernig atvikaðist það að þú gekkst til liðs við Sameinuðu þjóðirnar?

Mér er minnisstætt þegar ég fékk fyrsta starfið mitt þar árið 2003. Ég hafði áður unnið hjá Evrópuráðinu og ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu) og nýlokið Masters-prófi í alþjóðalögum frá Columbia-háskólanum í New York. Ég hafði sé með eigin augum áhrifamátt þessara staðbundnu samtaka og mig langaði til að starfa í stærra samhengi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Pall Asgeir 2Ég sótti um vinnu hjá S.þ. og framlengdi dvöl mína í New York, að námi loknu, til að ýta á eftir umsóknum mínum, en hvorki gekk né rak. Ég ákvað loks að láta gott heita og snúa aftur heim og lifa eðlilegra lífi. Þá vildi svo til að ég átti leið í aðalbyggingu SÞ og ákvað að kasta kveðju á einn þeirra sem ég hafði sent umsókn til. Hann trúði varla sínum eigin augum þegar ég rak inn nefið á skrifstofu hans, því hann var með á skjánum fyrir framan sig tölvupóst sem hann hafði rétt ólokið við að senda mér. Áður en ég náði að segja aukatekið orð spurði hann mig: „Viltu fara til Nairobí?“

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og ég hef starfað hjá samtökunum í Kenía, New York, Kongó og Súdan.

Hvenær hefur reynt mest á þig í starfi?

Það er aldrei neitt einfalt í vinnu af þessu tagi. Allt tekur á hvort sem það er að útfylla eyðublöð Sameinuðu þjóðanna eða glíma við sum af margslungnustu vandamálum heims. En þetta er líka bæði gefandi og hvetjandi … þó kannski

aðallega hið síðarnefnda. Hingað til hef ég haft mikla ánægju af því að fá tækifæri til að brydda upp á nýjungum og finna lausnir á þeim áskorunum sem við er að glíma í starfinu. En það er auðvitað erfiðast að vera fjarri fjölskyldunni. 

Finnst þér að þú hafir getað látið gott af þér leiða á áþreifanlegan hátt í þeim ríkjum sem þú hefur starfað í ?

Ég hef stundum líkt starfi í friðargæslusveitum S.Þ. við að vera fyrstur til að koma á slysstað. Maður hefur kannski ekki læknamenntun en með því að vera á staðnum getur maður bjargað mannslífum. Í Kongó (DRC) þróaði ég og aflaði fjármagns fyrir verkefni sem gerði kleyft að þjálfa og efla hæfni dómara um allt landið. Þetta var fyrsta verkefni sinnar tegundar í Kongó. Það var einstaklega ánægjulegt að taka þátt í þessu verkefni og kynnast því af eigin raun hversu mikilvægt það var fyrir dómarana að fá í hendurnar lagabækur og þjálfun, sem þá hafði sárvantað. Ég veit um dæmi þar sem þetta leiddi til þess að dómsmál voru tekin upp og fólk sem hafði verið fangelsað ólöglega, var látið laust.

Núverandi verkefni mitt í Súdan er mjög áhugavert og gengur vel. Við höfum komið á fót fyrsta samráðs vettvangi Sameinuðu þjóðanna um málefni tengd löggæslu og dómsmálum. Þetta var gert með stuðningi PallAsgeir3hæstráðanda Sameinuðu þjóðanna á staðnum og yfirmanni Friðargæslusveitarinnar. Við erum í óðaönn að þróa heildstæða áætlun til að koma til móts við þarfir íbúa Darfur á þessum sviðum og tryggja hnökralaus umskipti þegar einstakar stofnanir Sameinuðu þjóðanna taka við þessum málaflokkum af Friðargæslusveitinni. Þessu á að hrinda í framkvæmd ekki síðar en í júlí 2016, þannig að það er nóg að gera.

Þú hefur starfað fyrir alþjóðlegar stofnanir í Kosovo, Kongó, Kenía og Súdan. Hversu vandasamt er að starfa við svo erfiðar og ólíkar aðstæður?

Það er óneitanlega áskorun þegar það er svo heitt að tölvan manns slekkur á sér vegna hitans! Það er líka erfitt að það sé bæði rafmagns- og vatnslaust þegar maður kemur þreyttur heim úr vinnunni. Stundum eru moskítóflugurnar eini félagsskapurinn eftir vinnu og dapurlegt að geta ekki haft samband við ástvinina vegna lélegs síma- eða internetsambands. Menning og afþreying er oft af skornum skammti, sérstaklega þar sem starfsliðið verður að halda sig innan afgirts svæðis búða Sameinuðu þjóðanna. Svo eru líf og heilsa í hættu hættu vegna vopnaðra sveita vígamanna og óheilnæmra aðstæðna.

Á sama tíma má maður aldrei gleyma því að fólkið á staðnum býr alltaf við þessar eða miklu verri aðstæður. Það fer ekki í frí með reglulegu millibili eða á skrifstofu þar sem öryggi er tryggt, vatn er í krönunum og loftkælingin virkar. Og maður nýtur stuðnings frá Sameinuðu þjóðunum og vinnufélögunum og kemst því yfir erfiðasta hjallann.