Þar sem plastið endar

0
1030
Plasthreinsun
Sebastian Diaz-Duran frá Gvatemala tekur til hendinni.

Það segir sína sögu að þekktasta bókin um Kolgrafarvík heitir „Þar sem vegurinn endar”, enda fer því fjarri að allir Íslendingar geti staðsett Kolgrafarvík á landakorti. Þeim fjölgar þó nokkuð þegar örnefni í héraðinu eru nefnd: Trékyllisvík og Árneshreppur. En Kolgrafarvík og Strandirnar breiða út faðminn á móti hafstraumum úr norðri og austri. Forðum tóku þær með þökkum á móti rekaviði en nú skyggir óvelkomið plast og veiðarfæri á nytsamann rekann.

Rekaviður á Ströndum — vanrækt auðlind.

En sú var tíð að margir litu öfundaraugum þangað norður og vestur, því rekaviðurinn sem barst þangað í stórum stíl frá Rússlandi, þótti mikil hlunnindi. Rekinn hefur þó minnkað eftir því sem örlæti skógarhöggsmanna í Síberíu við Ægi hefur farið þverrandi. Það er hins vegar engin níska neins staðar þegar plast er annars vegar. Kolgrafarvík fer ekki varhluta af því að 8 milljónir smálesta af plasti enda í heimshöfunum á á ári hverju.

Fyrir utan rekaviðinn voru Strandir þekktar fyrir galdra og á þessum slóðum voru þrír galdramenn brenndir á 17.öld. Hrafn Jökulsson höfundur Þar sem vegurinn endar, hefur stundum verið kallaður galdramaður eftir farsælt starf sitt í þágu Grænlendinga og skáklistarinnar.

Síðastliðið vor heimsótti Hrafn Kolgrafarvík þar sem hann hafði verið í sveit á sumrum í æsku.

„Ég kom í mína heittelskuðu Kolgrafarvík 11. maí í vor,” rifjaði Hrafn upp í samtali við vefsíðu UNRIC. „Þá voru 46 ár síðan ég kom þangað fyrst. Þá var ég 8 ára vinnupiltur og rekaviður frá Síberíu var helsta auðlind fólksins í hinni afskekktu Strandasýslu, þar sem lífskjör hafa um aldir verið lökust frá Íslandi. Trén frá Síberíu voru beinlínis undirstaða byggðarinnar.”

Ævintýraheimur bernskunnar orðinn að ruslahaugi

En aðkoman nú í vor var ekki sú sama og í barnsminni hans.

Plastmengun
Veiðarfæri eru áberandi.

„Þessi mikla vík breiðir faðminn mót norðrinu og tekur við öllum hafsins gjöfum. En nú voru mörg ár síðan nokkur hafði hirt um þessar gjafir. Og allsstaðar var plastið og netadræsurnar og ruslið frá okkur mönnunum. Þetta var einsog hamfarasvæði. Og jarðvegurinn sundurétinn af plasti og fúnandi sprekum. Ævintýraheimur bernsku minnar var orðinn að ruslahaugi.”

Hrafni var svo brugðið að hann ákvað venda sínu kvæði í kross. „Ég hugsaði mitt ráð í tvo daga. 13. maí settist ég niður á gamlan drumb í fjörukambinum, leit yfir víkina og sagði: Kolgrafarvík mín. Næstu fjögur ár skal ég nota til þess að endurheimta minn ævintýraheim, hreinsa þína strönd og grund, og allar aðrar fjörur meðan mér endist þróttur.”

Gens Una Sumus

Plastmengun
Fjölþjóðaher tekur á plastinu.

En plasthamfarirnar á Ströndum eiga ekki nema að hluta til íslenskar rætur: plastið í höfunum er alheimsplága. Hnattrænn vandi kallar á hnattrænar lausnir. Hrafn fékk til liðs við sig „alþjóðlegan her” og voru það samtökin Veraldarvinir sem lögðu Hrafni hershöfðingja til fótgöngulið.

Vígorð skákarinnar er „Gens Una Sumus” og Veraldarvinir víða tóku undir að vissulega erum við „eitt kyn”. Þegar vefsíðan ræddi við Hrafn var nýgift par á þrítugsaldri, Sebastian, ítalskmenntaður Gvatemalabúi og Vlada rússnesk-úkraínsk kona hans að taka til hendinni í félagi við Konstantínu jafnöldru þeirra nýútskrifaðan grískan lækni.

Öfugt við skógi vaxinn norðurhluta Evrópu, Norðurlönd og Rússland er Ísland gróðursnautt þökk sé virkni mannsins, eldfjalla og sauðkindinni. En Strandamenn voru löngum þekktir fyrir að vera dverghagir þegar smíði úr rekavið var annars staðar. Höfðingjasetur og dómkirkjur voru gjarnan byggð úr reka frá Ströndum. Nútíma hagkerfið og samgöngur leystu af hólmi þessar gjafir hafsins. Sagað timbur í neytendavænum stærðum kom með austur-viðskiptunum og hafskip leystu hafstrauma af hólmi og þessi vegur endaði ekki lengur í Kolgrafarvík. Strandir eins og fleiri héruð urðu fólksfækkun að bráð.

„Síðustu áratugi hefur þeim farið ört fækkandi sem nýta hina fornu auðlind“, heldur Hrafn áfram. „Rekaviðurinn hefur safnast upp í hrúgur í fjörunum. Í ofsaveðrum gengur brimið á land, og þeytir jafnvel stórum trjám langt upp á land. Þannig má segja að rekaviðarhaugarnir séu smám saman að éta upp landið. Í þessum haugum leynist svo innrásarherinn: Plastið, netadræsurnar, ruslið.”

Fordæmi Bláa hersins

Plastmengun
Hrafn Jökulsson virðir fyrir sér furðuverk.

Hrafn er svo sannarlega ekki einn og langt í frá sá fyrsti til að lýsa yfir stríði á hendur plasti og óhreinum ströndum. Tómas Knútsson hefur um árabil veitt Bláa hernum forystu og verið óþreytandi við að hreinsa strendur, ekki síst sunnanlands. Og Vestfirðingar hafa ekki látið deigan síga á undanförnum árum við að hreinsa Hornstrandir.

Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið höndum saman við Evrópusambandið sem stendur fyrir átaki „#EUBeachCleanup” í september á hverju ári. Á síðasta ári tóku 40 þúsund sjálfboðaliðar þátt í því í nærri 80 ríkjum.

Umhverfisstofnun SÞ (UNEP)  hefur í sinni herferð sem kennd er við hrein höf  #CleanSeas beint sjónum að rótum vandans í framleiðslu og neyslu einnota og óendurnýjanlegs plasts.

Ánamaðkur í dönskum sinnepsbrúsa

Sá skaði sem plastmengunin er, er djúpstæður í orðsins fyllstu merkingu.

Plastmengun
Djúpstætt vandamál.

„Ruslið smýgur ofan í jarðveginn, dyggilega stutt af sprekum og spýtum, og breytir tilveru lífríkis í martröð,” segir Hrafn. „Saklaus ánamaðkur getur lent ofan í dönskum sinnepsbrúsa, könguló álpast inn í plaströr af rússneskum verksmiðjutogara, járnsmiður lokast í íslenskri bjórdós, músarungi orðið fangi í plastkassa frá amerísku mjólkurfirma — ég hef séð þetta allt, og þetta eru hin saklausu fórnarlömb okkar mannanna; þau deyja í milljarðatali á öllum heimsins ströndum.”

Alheimsböl

Á Alþjóðlega Umhverfisdaginn 2018 benti António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á að enginn heimshluti væri óhultur því plastmengunin næði til „afskekktustu eyja og Norðurskautsins; enginn staður er ósnortinn.“ Hann eggjaði heimsbyggðina til að sameinast og „brjóta plastmengun á bak aftur,“ jafnvel þott klífa yrði þrítugan hamarinn því „plasteindirnar í sjónum væru orðnar fleiri en stjörnurnar í stjörnukerfinu.“ Áreiðanlega hafa svipaðar hugsanir leitað á Hrafn og Veraldarvini hans sem hafa hlýtt eggjun aðalframkvæmdastjórans og tekið höndum saman um að vinna bug á þessu alheimsböli.