Þegar því sem rekur á fjörur er breytt í list

0
129
The Betrayal/Arctic Creatures
Svikin/Arctic Creatures

Á hverju sumri halda þrír vinir út úr bænum og á náðir íslensku víðáttunnar. Og allt sem rekur á fjörur félaganna verður þeim að list; hvort heldur sem er lítríkt plast, gamlir skór, flöskur eða fiskinet. 

Þeir segjast vera undir áhrifum frá náttúruöflunum; sköpun, eyðileggingu og endurfæðingu.

Lifestyle/Arctic Creatures
Lífstíll/Arctic Creatures

Þeir hafa haslað sér völl í mismunandi listgreinum. Óskar Jónasson er kvikmyndaleistjóri, Hrafnkell Sigurðsson er myndlistarmaður og Stefán Jónsson leikari og leikstjóri. Upphaflega brugðu þeir á leik á ferðum sínum og tóku myndir handa vinum og vandamönnum og samfélagsmiðlum. Fyrir hvatningu þeirra nánustu varð þetta að myndlistarsýningunni Arctic Creatures og bók.

Hún er haldin á sama tíma og heimsbyggðin sest á rökstóla og ræðir ástand hafsins á Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Lissabon í Portúgal. Svo illa er komið að António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsti þar yfir neyðarástandi í hafinu.

Ekki fer hjá því á ferðum þeirra um Ísland að þeir standi andspænis andstæðum hreinnar náttúru og mengunar af mannavöldum.

Eldgömul skilaboð

The Sacrifice/Arctic Creatures
Fórnin/Arctic Creatures

„Ætli við upplifum þetta ekki bara eins og hver annar?”, segir Óskar Jónasson. „Oftast finnst manni þetta ömurlegt og svo í hinn kantinn gleðst maður einstaka sinnum yfir því að rekast á óvenjulega eða litríka hluti. Sérstaklega þegar við erum búnir að vera á göngu lengi fjarri mannabyggðum, þá er eins og þetta séu skilaboð frá menningunni. Jafnvel ævagömul skilaboð, af því að það hefur sjálfsagt tekið þetta plast óratíma að komast á þennan stað. Við eigum það til að handleika þetta plastdrasl eins og óviðjafnanleg verðmæti.”

Þremenningarnir eru hvorki baráttumenn í umhverfismálum, eða “plokkarar” sem fara um eins og ryksugur um strandir til landsins og hreinsa þær af plastúrgangi. Á hinn bóginn stendur þeim hreint

„Við erum vissulega að draga athyglina að þessari mengun, þótt við nálgumst það á annan hátt og listrænni,” segir Stefán Jónsson. „Allt þetta dót er mannana dót, listskrúðugt og allskonar eftir volkið í hafinu. Það má sjá í því vissa fegurð þegar það er sett í okkar samhengi. Hugmyndir verða til á göngunni, byggðar á hvað rekur á fjörur okkar, sem við síðan setjum á svið, ef svo má að orði komast.”

Hvað ætli sé mikið þarna úti?

Plastic Warfare
Plaststríðið/Arctic Creatures

Óskar Jónasson segir að fréttir af plastmengun í hafinu séu ekki orðum auknar.

„Án nokkurs vafa. Í fjörunni erum við að sjá ekki nema brotabrot af því sem er í hafinu; bæði það sem er á floti og marar rétt undir yfirborðinu og líka því sem liggur á hafsbotni. Og ef maður veltir því fyrir sér að það eru yfirleitt nokkur tonn af þessu í hverjum firði, hvað ætli sé þá mikið þarna úti?”

Fyrir fiskveiðiþjóð, sem stærir sig af sjálfbærum sjávarútvegi, er erfitt að sætta sig við hversu mikið af netum og veiðarfærum -oftar en ekki úr plasti – skolar upp á strandir landsins.

Jafnvel aðeins örstutt innlit á sýningu Arctic Creatures færir mann heim sanninn um að vet og reipi eru hvarvetna og sama máli gegnir um hjálma, hanska og stígvél. Og margar af þeim einni milljón plastflaskna sem framleiddar eru á hverri mínútu í heiminum enda á íslenskri strönd. Þarf sjávarútvegurinn ekki að tak sig taki?

Tegund í útrýmingarhættur/Arctic Creatures
Tegund í útrýmingarhættur/Arctic Creatures

„Jú, ekki spurning. Auðvitað er skiljanlegt að net og veiðarfæri slitni frá skipum í óveðri, en þetta er eitthvað annað og meira,” segir Óskar Jónasson. „Þetta viðhorf sjómanna og þessi menning virðist vera lífseig. Ég hef nýlega heyrt af skilaboðum sem voru skrifuð á miða í íslenskum togara. Miðinn var á vegg við hliðina á ruslafötu í matsal togarans. Á honum stóð „Ekki henda rusli í sjóinn fyrir innan fjórar sjómílur.“ Sem hlýtur þá að þýða að þykir í góðu lagi að fleygja almennu sorpi í sjóinn fyrir utan fjórar sjómílur, ekki satt?”

Fögnum sköpunarverkinu

Stefán Jónsson tekur í svipaðan streng.

„Já, plastmengun hafsins er sannarlega staðreynd og það sem rekur á fjörur kannski minna vandamál en það sem brotnar niður og berst í fiska og manneskjur.

„En eins sorglegt og þetta er,“ heldur Stefán áfram, „þá erum við gömlu vinirnir að njóta lífsins og félagsskaparins, lausir við amstur og áreiti hversdagsins. Ímyndunaraflið fær lausan tauminn, húmorinn og sköpunargleðin ráða ríkjum.

Við fögnum sköpunarverkinu í öllum sínum myndum. Og verðum hluti af því, bæði náttúrunni og þeirri ónáttúru mannskepnunar að taka ekki til í vistarverum sínum. Við erum hluti af þessu öllu.”

https://arcticcreatures.is