Þróunaraðstoð skorin niður um 25%

0
443

Stefnt er að því skera niður framlög til þróunarsamvinnu um fjórðung á næsta ári, eða um tæpan milljarð króna, skv. upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu. Þar með lækkar hlutfall vergra þjóðartekna (VÞT) sem fer til þróunarmála niður í 0,23% en viðmið Evrópusambandsins er 0,35%, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Alls námu framlög til málaflokksins 4,272 milljörðum í fyrra en í ár lækka þau í 4,2 milljarða. Á næsta ári er áætlað að framlög lækki um tæpan milljarð til viðbótar. Vegna veikingar íslensku krónunnar þýðir þetta þó töluvert meiri samdrátt. Á hinn bóginn ollu minnkandi þjóðartekjur því að framlögin námu hærra hlutfalli af VÞT en áætlað var, eða 0,43%. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að það verði 0,32% en á því næsta 0,23%.

Sighvatur Björgvinsson, framkvæmdastjóri ÞSSÍ, á ekki von á að samdrátturinn vari lengi. Ísland hafi sótt um aðild að ESB, sem geri kröfu um að aðildarríki sín veiti 0,35% af VÞT til þróunarmála. „Þá kröfu þurfa þau ríki, sem eru að gerast aðilar að Evrópusambandinu, að uppfylla, jafnvel þótt þau séu fátækari en Ísland.“  

Tuttugu ára þróunarsamvinnu Íslendinga og Namibíumanna lýkur í lok næsta árs. Íslensk stjórnvöld hafa formlega tilkynnt stjórnvöldum í Namibíu að ekki sé unnt að verða við óskum þeirra um framlengingu á samstarfssamningi milli þjóðanna um þróunarsamvinnu. Samstarfsþjóðum Íslendinga í tvíhliða þróunarsamvinnu fækkar því um helming á tveimur árum, úr sex í þrjár, en þegar hefur umdæmissskrifstofu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á Srí Lanka verið lokað og þessa dagana er verið að loka skrifstofunni í Níkaragva.