Tveir milljarðar aldraðra 2050

0
400

older
1. október 2012. 80 prósent alls eldra fólks í heiminum mun búa í þróuðum ríkjum árið 2050. Þá verða þeir sem eru sextugir eða eldri orðnir fleiri en þeir sem eru fimmtán ára og yngri. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) sem gefin var út 1. október, á Alþjóðadegi aldraðra.
Níundi hver maður í heiminum er eldri en sextugur en eldra fólki mun fjölga um 200 milljónir á næsta áratug og ná einum milljarði en tveimur milljörðum um 2050.
Í skýrslunni eru stjórnvöld hvött til að búa sig undir breyttar aðstæður sem þessi fjölgun hefur í för með sér 2050 og bendir á að meir en 100 ríki hafi nú þegar tekið skref í þá átt að berjast gegn fátækt á meðal aldraðra.
 “Öldrun gerist hægt og sígandi og byrjar ekki um sextugt. Unga fólkið í dag verður hluti af þessum rúmu tveimur milljörðum aldraðra árið 2050,” sagði  Babatunde Osotimehin, forstjóri UNFPA þegar skýrslan var kynnt í Tókíó í Japan.
“Hröð fjölgun aldraðra og stöðug aukning lífslíkna manna um allan heim eru á meðal umfangsmestu félagslegu, efnahagslegu og pólitísku umbreytinga okkar tíma, “ sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi sínu á Alþjóðadegi aldraðra.

Mynd: Tveir kappklæddir herramenn við skákborð í Miðgarði (Central Park) í New York. SÞ/Grunzweig