Úkraínu líkt við Eystrasaltsríkin

0
553

Ukraine Nordic Council

Maí 2014. Norðurlandaráð brá út af vana og tók málefni Úkraínu til umræðu á sérstöku þemaþingi á Íslandi í Apríl.

Samkomulag tókst þvert á flokkslínur um að ástandið eystra væri svo alvarlegt fyrir norræna samvinnu að nauðsyn krefði að málið væri tekið til umræðu á þemaþinginu sem haldið var á Akureyri og fjallaði um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.

Varnar- og utanríkismál eru ekki formlegur hluti norrænna samvinnu nema að litlu leyti, en hægt er þó að taka þau til umræðu ef vilji er fyrir hendi. Lífleg umræða varð á þemaþinginu um með hvaða hætti Norðurlandaráð gæti stutt við bakið á lýðræðisþróun í Úkraínu.

„Þetta er einstakt ástand í heiminum og einstakt ástand fyrir okkur,” segir forseti Norðurlandaráðs sænski jafnaðarmaðurinn Karin Åström í opnunarræðu sinni. Í yfirlýsingu þingsins var minnt á að Norðurlönd fögnuðu í ár að friður hefur ríkt á milli þeirra í 200 ár. „Nú þarf að halda fast í þjóðarrétt, lýðræðis og mannréttindi,“ segir í ályktuninni. 

„Ástæða fyrir stuðningnum við Úkraínu í þessum málum er sú að í Norðurlandaráði er löng hefð fyrir því að leggja áherslu á sjónarmið lýðræðis og réttarríkisins. Á sama hátt og Norðurlönd studdu nýju lýðræðisríkin við Eystrasalt fyrir rúmum tuttugu árum vilja Norðurlönd nú styðja lýðræði í Úkraínu.“

Margir ræðumenn lögðu áherslu á söguleg sjónarmið. Bent var á að ástand á borð við það sem nú ríkir í Úkraínu hefði ekki sést í Evrópu frá lokum Síðari heimsstyrjaldarinnar. Ítrekað var skírskotað til alþjóðalaga og þjóðarréttar. „Við erum hvorki varnar- né utanríkismálabandalag, heldur samfélag um sameiginleg gildi í krafti þeirrar trúar að þjóðaréttur skuli lagður til grundvallar,“ sagði Hans Wallmark, varaforseti ráðsins sem kemur úr röðum sænskra íhaldsmanna. Norrænt samstarf varð til í skugga seinni heimsstyrjaldar og þess kalda stríðs sem á eftir kom, og ber því vitni að lýðræði og friðsamleg samvinna koma frelsi einstaklinga og framþróun ríkja til góða.

Norrænir samstarfsaðilar hafa um árabil átt mikilsvert samráð með þingmönnum og öðrum tengiliðum í Rússlandi „Það er afar mikilvægt að standa vörð um þetta samráð eftir megni,“ sagði Bertel Haarder, fulltrúi Venstre, Danmörku.  „Þannig sýnum við að frjáls skoðanaskipti eru til merkis um grundvallarfrelsi og -réttindi í lýðræðissamfélagi.“

Heimild: Norden.org

Mynd: Sérstakt þemaþing Norðurlandaráðs var haldið á Akureyri. Mynd: Norden.org